Flutningsstraumur til landsins nú meiri en nokkru sinni fyrr

Undanfarin misseri hefur flutningsstraumur fólks frá útlöndum verið meiri en nokkru sinni fyrr. Samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár voru landsmenn 304.334 hinn 1. júlí síðastliðinn. Um síðustu áramót voru íbúar 299.891 og hefur íbúum því fjölgað um 1,5% sem af er þessu ári. Ef fram fer sem horfir verður fólksfjölgun á árinu 2006 nálægt 3%. Á árinu 2005 fjölgaði landsmönnum um 2,2% og var það meiri fólksfjölgun en verið hafði um áratuga skeið. Árleg fólksfjölgun hafði þá aldrei verið hærri en 2% frá því um 1960.

Mikil fólksfjölgun hérlendis frá lokum seinni heimstyrjaldar fram á 7. áratuginn stafaði fyrst og fremst af miklum fjölda fæðinga og bættum lífslíkum. Þótt fæðingartíðni hér á landi séu hærri en víðast hvar annars staðar í Evrópu munar nú meiru um umfangsmikla flutninga fólks frá útlöndum.

Í Hagtíðindahefti sem gefið var út 8. september um Starfandi erlenda ríkisborgara 1998-2005 kom fram að fjöldi erlendra ríkisborgara á vinnumarkaði nær þrefaldaðist á tímabilinu 1998 til 2005. Tölur um búferlaflutninga á fyrri helmingi ársins 2006 sýna að síst hefur dregið úr flutningum útlendinga til landsins á undanförnum mánuðum. Á tímabilinu janúar til júní 2006 voru aðfluttir umfram brottflutta í flutningum til landsins 3.262 samanborið við 3.680 allt árið 2005. Árið 2005 var tíðni aðfluttra umfram brottflutta 13 á hverja 1.000 íbúa en fram til ársins 2005 hafði þessi tala orðið hæst árið 2000 (6,1 á hverja 1.000 íbúa).

Rétt er að hafa í huga að nokkur óvissa er um skráningu útlendinga í flutningum til og frá landinu. Nokkur tími getur liðið frá því að einstaklingur kemur til landsins þar til hann er skráður í íbúaskrá þjóðskrár. Að sama skapi geta liðið nokkrir mánuðir þar til þeir sem flytja af landi brott eru felldir úr íbúaskrá. Í tölum um flutninga til landsins teljast allir einstaklingar með dvalarleyfi hérlendis til að minnsta kosti sex mánuða. Ljóst má vera að allmargir þeirra sem koma til vinnu hérlendis dveljast hér einungis tímabundið þótt engin leið sé að spá fyrir um lengd dvalar á grundvelli upplýsinga um skráningu einstaklinga í íbúaskrá.

Flestir flytjast frá útlöndum til höfuðborgarsvæðis og til Austurlands 
Í öllum landshlutum voru aðfluttir frá útlöndum fleiri en brottfluttir fyrri helming ársins 2006 (sjá mynd). Áberandi er hversu miklu fleiri fluttust frá útlöndum til höfuðborgarsvæðisins og til Austurlands en til annarra landsvæða. Á höfuðborgarsvæðinu voru aðfluttir frá útlöndum 1.488 fleiri en brottfluttir og á Austurlandi 1.245. Flutningsjöfnuður í innanlandsflutningum leiðir í ljós talsvert ólíka mynd. Til flestra landsvæða í nágrenni höfuðborgarsvæðisins voru aðfluttir fleiri en brottfluttir í innanlandsflutningum en í öðrum landsvæðum voru brottfluttir fleiri en aðfluttir. Þrátt fyrir mikinn straum fólks frá útlöndum til Austurlands í kjölfar virkjana- og stóriðjuframkvæmda eru brottfluttir þaðan fleiri en aðfluttir ef einungis er tekið mið af innanlandsflutningum.

Mun fleiri erlendir karlar en konur flytjast nú til landsins
Á árunum 2004 til 2006 hafa orðið talsverðar breytingar á hlutfalli kynjanna í flutningum erlendra ríkisborgara til og frá landinu frá því sem áður var. Fram að því voru erlendar konur yfirleitt nokkru fleiri en karlar í flutningum til landsins. Myndin hér að neðan sýnir að þessu var öfugt farið fyrstu sex mánuði ársins 2006. Í öllum landshlutum utan Norðurlands vestra voru karlar fleiri en konur í flutningum til landsins. Þetta var mest áberandi á Austurlandi en þangað fluttust 1.274 erlendir karlar samanborið við 103 erlendar konur. Á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og Vesturlandi voru erlendir karlar í flutningum til landsins um það bil helmingi fleiri en konur.

Talnaefni