Árið 2004 dóu 1.823 einstaklingar búsettir á Íslandi, 962 karlar og 861 kona. Dánartíðni var því 6,2 á hverja 1.000 íbúa, 6,6 meðal karla og 5,9 meðal kvenna. Eins og annars staðar í heiminum er meðalævilengd karla styttri en kvenna og íslenskir karlar geta nú vænst þess að verða 78,8 ára og konur 82,6 ára (miðað við meðaltal áranna 2001-2004). Á undanförnum þremur áratugum hefur dregið talsvert saman með kynjunum í meðalævilengd. Í upphafi áttunda áratugarins var sex ára munur á ævilengd kvenna og karla hér á landi en er nú aðeins tæp fjögur ár. Svipaða þróun má greina í öðrum Evrópulöndum en munur á ævilengd milli kynjanna er þó víðast hvar meiri en hér; sex til sjö ár í flestum löndum. Á Norðurlöndum er hann talsvert minni en minnstur hér á landi.
Lífslíkur íslenskra karla hafa batnað mun meira en kvenna á síðustu áratugum og nú er svo komið að Íslendingar verða karla elstir í heiminum. Hið sama verður ekki sagt um konur. Lengi vel voru lífslíkur íslenskra kvenna hæstar á veraldarvísu, en nú eru íslenskar konur í sjötta sæti. Annars staðar á Norðurlöndum má merkja svipaða þróun þar sem lífslíkur karla hafa batnað mun meira en lífslíkur kvenna. Meðal ýmissa þjóða sem stóðu Íslendingum (sem og öðrum Norðurlandaþjóðum) töluvert langt að baki fyrir ekki mörgum árum er ævilengd kvenna nú hærri en hér. Hér má nefna Spán og Frakkland, en þar verða konur nú heldur eldri en hér á landi. Fyrir rúmum 20 árum gátu íslenskar konur hins vegar vænst þess að verða tveimur árum eldri (80,3) en kynsystur þeirra á Spáni (78,3) og í Frakklandi (78,2). Í Japan eru ævilíkur kvenna langhæstar í heimi en þar verða konur nær 86 ára gamlar að meðaltali. Japanskir karlar geta vænst þess að ná rúmlega 78 ára aldri.
Talnaefni