FRÉTT MANNFJÖLDI 28. MARS 2006

Árið 2005 dóu 1.836 einstaklingar á Íslandi, 945 karlar og 891 kona. Dánartíðnin var því 6,2 á hverja 1.000 íbúa, 6,4 á hverja 1.000 íbúa meðal karla og 6,0 meðal kvenna.

Eins og annars staðar í heiminum er meðalævilengd karla styttri en kvenna og íslenskir karlar geta nú vænst þess að verða 78,9 ára og konur 82,8 ára (miðað við meðaltal áranna 2001-2005). Á undanförnum þremur áratugum hefur dregið talsvert saman með kynjunum í meðalævilengd. Í upphafi áttunda áratugarins var sex ára munur á ævilengd kvenna og karla hér á landi en er nú tæp fjögur ár. Svipaða þróun má greina í öðrum Evrópulöndum en munur á ævilengd milli kynjanna er þó víðast hvar meiri en hér; sex til sjö ár í flestum löndum. Á Norðurlöndum er hann talsvert minni en minnstur hér á landi.



Ungbarnadauði (látnir á fyrsta ári af 1.000 lifandi fæddum) hefur verið með eindæmum lítill hér á landi á síðustu árum. Aðeins tíu börn dóu á fyrsta ári á árinu 2005, sex drengir og fjórar stúlkur. Samkvæmt meðaltali undanfarinna fimm ára er ungbarnadauði 2,5 af 1.000 fæddum. Hér skipa Íslendingar sér í fremstu röð þjóða heims, en hvergi annars staðar er ungbarnadauði nú undir 3 af 1.000. Annars staðar á Norðurlöndum er hann lægstur í Svíþjóð og Finnlandi (3,1) og hæstur í Danmörku (4,4). Utan Norðurlanda er ungbarnadauði nú minnstur í Japan (3,0). 

Burðarmálsdauði er annað viðmið sem notað hefur verið til þess að meta heilsufar ungbarna og mæðra þeirra. Hann er reiknaður sem fjöldi látinna á fyrstu viku að viðbættum andvana fæddum (ýmist eftir 28 vikna meðgöngu eða 22 vikna meðgöngu)  af öllum fæddum. Eins og ungbarnadauðinn hefur burðarmálsdauði lækkað umtalsvert hér á landi á undanförnum áratugum og er nú lægri en nokkurs staðar annars staðar í heiminum, 3,6 af 1.000 fæddum (miðað við 28 vikna meðgöngu).

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.