FRÉTT MANNFJÖLDI 23. JANÚAR 2024

Gefin voru út 3.394 ný dvalarleyfi árið 2022 sem er aukning um 1.069 frá árinu á undan eða um 46%. Á árunum 2008 til 2014 var fjöldi nýrra dvalarleyfa um 1.000 á hverju ári. Síðan þá hefur nýútgefnum dvalarleyfum farið fjölgandi þó með örlítilli fækkun á milli árana 2019 og 2020.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í tölum Hagstofu Íslands um ný dvalarleyfi gefin út á árunum 2020 til 2022.

Dvalarleyfum vegna starfa hefur fjölgað
Dvalarleyfum vegna starfa fækkaði árið 2020 frá því sem var árin þar á undan en hefur fjölgað seinustu tvö ár. Dvalarleyfum vegna náms hefur fjölgað jafnt og þétt frá árinu 2011 fyrir utan 28% fækkun árið 2019. Árin 2021 og 2022 jókst fjöldi dvalarleyfa vegna náms aftur og var 585 á árinu 2022.

Fjölgun var í öllum flokkum dvalarleyfa árið 2022. Mest fjölgun var í dvalarleyfum af öðrum ástæðum og þar á eftir vegna fjölskyldusameiningar.

Munur á milli kynja óverulegur
Munur á fjölda nýrra dvalarleyfa eftir kyni árið 2022 er óverulegur þegar horft er á heildarfjöldann en kynjamunur kemur greinilega fram þegar skoðaður er fjöldi dvalarleyfa eftir ástæðu. Konur fengu frekar leyfi vegna fjölskyldusameiningar og náms en karlar vegna starfs og af öðrum ástæðum.

Flestir á aldrinum 20-29 ára
Flestir sem fengið hafa dvalarleyfi hér á landi eru frá Asíu en fólk frá Ameríku er næststærsti hópurinn. Flestir voru í aldursflokknum 20-29 ára og næstflestir í aldursflokknum 30-39 ára.

Um gögnin
Notuð er skilgreining Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, á nýjum dvalarleyfum. Með nýjum dvalarleyfum er átt við dvalarleyfi sem veitt eru einstaklingum sem eru með ríkisfang utan landa Evrópusambandsins og EFTA og hafa ekki áður fengið dvalarleyfi eða þegar meira en sex mánuðir eru frá því síðasta dvalarleyfi rann út.

Tölurnar eiga einungis við um dvalarleyfi sem gilda lengur en þrjá mánuði. Einstaklingar sem þáðu tímabundna vernd vegna stríðsins í Úkraínu og þeir sem fengu dvalarleyfi vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu eru ekki með í þessum tölum. Alls fengu 2.303 einstaklingar frá Úkraínu tímabundna vernd árið 2022 og 1.319 einstaklingar fengu dvalarleyfi vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, nær allir árið 2020.

Athugið að tölur vegna áranna 2008-2019 hafa verið uppfærðar.

Talnaefni
Ný dvalarleyfi eftir ástæðu, ríkisfangi og kyni 2008-2022
Ný dvalarleyfi eftir ástæðu, aldri og kyni 2008-2022

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1030 , netfang mannfjoldi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.