FRÉTT MANNFJÖLDI 10. DESEMBER 2009

Út er komið nýtt hefti Hagtíðinda þar sem gerð er grein fyrir endurkomum þeirra sem hafa flust til útlanda á tímabilinu 1986–2008.

Allt að 79% íslenskra ríkisborgara sem flytja búferlum til útlanda snúa aftur til Íslands eftir að meðaltali 2,4 ára dvöl. Erlendir ríkisborgarar sem fara af landi brott snúa til baka í mun minna mæli, eins og við má búast, en 17% þeirra hafa þó snúið til baka eftir innan við ársdvöl erlendis.

 

Yngra fólk er líklegra en eldra fólk til að koma til baka. Þá eru íslenskir ríkisborgarar sem flytja til einhverra Norðurlandanna líklegra en aðrir til að skila sér til baka, eða 84%. Ólíklegastir til að snúa til baka eru þeir sem flytja til Norður-Ameríku, en endurkomuhlutfallið þaðan er 59%.

Alls voru 112.494 aðflutningar á tímabilinu 1986–2008. Af þeim flokkast 57.820 flutningar sem endurkomur eða 51%. Fram til ársins 2003 var þetta hlutfall enn hærra eða 63%.

Lítill munur er á íslenskum körlum og konum í hópi þeirra sem koma aftur eftir dvöl erlendis, eða 1.028 karlar á hverjar 1.000 konur hjá þeim sem komu aftur innan 8 ára frá brottför.

Endurkomur brottfluttra 1986-2008 - Hagtíðindi

Talnaefni


 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.