FRÉTT MANNFJÖLDI 04. JÚNÍ 2024

Endursendingar umsækjenda um alþjóðlega vernd frá Íslandi vegna Dyflinnarsamstarfsins voru 47 árið 2023. Um er að ræða tæplega þreföldun endursendinga frá árinu 2022 en líklegt er að kórónuveirufaraldurinn hafi haft áhrif á fjöldann árin 2020-2022. Á tímabilinu 2008-2023 voru flestar endursendingar árið 2017 þegar 117 einstaklingar voru sendir frá landinu. Árið 2018 fækkaði aftur endursendingum og voru þá 52.

Flestar endursendingar frá Íslandi vegna Dyflinnarsamstarfsins árið 2023 voru til Spánar og Svíþjóðar.

Samstarfslönd 2023
Árið 2023 voru níu einstaklingar endursendir til Spánar og Svíþjóðar, fimm til Frakklands og Ítalíu, fjórir til Belgíu, Þýskalands og Póllands og tveir til Írlands.

Karlar í miklum meirihluta
Af þeim sem sendir voru til samstarfslanda vegna Dyflinnarsamstarfsins voru karlar í miklum meirihluta. Á árunum 2015 til 2023 var árlegt hlutfall karla á bilinu 77-93%.

Um gögnin
Dyflinnarsamstarfið: Samstarf byggt á reglugerð Evrópuþingsins og ráðherraráðs Evrópusambandsins nr. 604/2013 frá 26. júní 2013 um að koma á viðmiðunum og fyrirkomulagi við að ákvarða hvaða aðildarríki beri ábyrgð á meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd sem ríkisborgari þriðja lands eða ríkisfangslaus einstaklingur leggur fram í einu aðildarríkja samstarfsins.

Tölur um endursendingar frá Íslandi til samstarfslanda vegna Dyflinnarsamstarfsins eru unnar úr gögnum frá Útlendingastofnun. Börn sem eru í fylgd með forráðamönnum eru ekki talin með. Með tölum frá og með árinu 2024 verður hægt að birta upplýsingar um börn í fylgd forsjáraðila vegna endurbóta á skráningu þessara þátta. Þessi breyting er tilkomin vegna samstarfs Útlendingastofnunar og Hagstofu Íslands sem miðar að því að auka gæði og tímanleika talna um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi.

Með endursendingum er átt við flutning umsækjenda um alþjóðlega vernd úr landi til samstarfslanda sem bera ábyrgð á viðkomandi umsækjenda.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1030 , netfang mannfjoldi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.