Á síðastliðnum 10 árum hefur fjöldi erlendra ríkisborgara á Íslandi tvöfaldast. Þann 1. janúar 2012 voru skráðir hérlendis 20.957 erlendir ríkisborgarar. Hlutfall erlendra ríkisborgara af heildarmannfjölda var 6,6% samanborið við 3,4% árið 2002. Aftur á móti fækkaði erlendum ríkisborgurum milli 2011 og 2012 um 186. Hlutfall erlendra ríkisborgara stóð þó í stað.

Pólverjar fjölmennastir
Eins og síðustu ár voru Pólverjar langfjölmennasti hópur erlendra ríkisborgara hér á landi hinn 1 janúar 2012. Alls voru 9.049 einstaklingar upprunnir frá Póllandi eða 43,2% allra erlendra ríkisborgara. Pólskir karlar voru 45,9% allra erlendra ríkisborgara af karlkyni 1. janúar 2012, eða 4.915 af 10.714. Pólskar konur voru 40,6% af erlendum kvenkyns ríkisborgurum. Næstfjölmennasti hópur erlendra ríkisborgara var frá í Litháen, 7,7% en 4,4% erlendra ríkisborgara koma frá Þýskalandi.

Karlar fjölmennari meðal erlendra ríkisborgara
Hinn 1. janúar  2012 voru karlar 1.153 fleiri en konur meðal erlendra ríkisborgara. Kynjahlutfallið er hins vegar misjafnt eftir því frá hvaða landi var komið. Þannig voru 1.188 karlar á hverjar 1.000 konur meðal erlendra ríkisborgara frá Póllandi og 1.157 frá Litháen. En meðal erlendra ríkisborgara frá Filippseyjum voru aftur á móti 791 karl á hverjar 1.000 konur hinn 1. janúar 2012.

Erlendir ríkisborgarar voru hlutfallslega flestir á Suðurnesjum
Hlutfallslega flestir erlendir ríkisborgarar búa á Suðurnesjum og Vestfjörðum, eða 9,0% af heildarmannfjölda á hvoru landsvæði um sig. Einungis 3,6% íbúa á Norðurlandi eystra hafa á hinn bóginn erlent ríkisfang og 4,5% íbúa Norðurlands vestra. Á öðrum landsvæðum var hlutfall erlendra ríkisborgara á bilinu 6,2–7%.

370 einstaklingar fengu íslenskt ríkisfang árið 2011
Í fyrra fengu 370 einstaklingar íslenskan ríkisborgararétt en 450 árið 2010. Ekki hafa færri einstaklingar fengið íslenskan ríkisborgarrétt á einu ári síðan 2002. Árið 1991 fengu fleiri karlar en konur íslenskt ríkisfang, en á hverju ári eftir það hafa konur verið í meirihluta nýrra íslenskra ríkisborgara. Svo var og í fyrra þegar 201 kona fékk íslenskan ríkisborgararétt en 169 karlar. 


Flestir frá Evrópu
Flestir nýrra ríkisborgara árið 2011 voru frá Evrópu, þar af 35 frá Póllandi og 34 frá Serbíu. Næstflestir voru frá Asíu, þar af 35 frá Filippseyjum. Þetta er svipuð skipting og undanfarin ár.

Tölum um erlendan bakgrunn frestað
Ekki er hægt að svo stöddu að birta tölur um fjölda fólks eftir erlendum bakgrunni, þar sem nauðsynleg gögn hafa ekki borist í tæka tíð. Birtingu þess töluefnis er því frestað um óákveðinn tíma.

Talnaefni