Árið 2005 fæddust  4.280 börn hér á landi, 2.183 drengir og 2.097 stúlkur. Þetta eru heldur fleiri fæðingar en árið áður, þá fæddust hér 4.234 börn. Algengasti mælikvarði á frjósemi er fjöldi lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu. Árið 2005 mældist frjósemin 2,05 börn á ævi hverrar konu samanborið við 2,03 börn ári fyrr.  

Frjósemi var háð talsverðum sveiflum á 20. öldinni. Eins og annars staðar í Evrópu lækkaði frjósemi nokkuð á fyrri hluta aldarinnar. Hér var lækkunin þó talsvert minni en víða annar staðar. Mynd 1 sýnir t.a.m. að hér var frjósemi 3,6 árið 1930 samanborið við 2,2 í Danmörku og 2 í Svíþjóð. Heimskreppan á 4. áratug aldarinnar hafði nær alls staðar í för með verulega lækkaða frjósemi. Hér varð frjósemin minnst árið 1939 (2,7).

Eins og annars staðar á Vesturlöndum hefur dregið úr frjósemi á Íslandi á undanförnum áratugum. Á 20. öldinni varð frjósemi hér á landi mest undir lok 6. áratugarins en þá voru lifandi fædd börn á ævi hverrar konu um 4,2. Frjósemi minnkaði mjög ört á 7. áratugnum og féll niður fyrir 3 um 1970 og varð lægri en 2 um tveggja ára skeið um miðbik 9. áratugarins. Eftir það hækkaði frjósemi á Íslandi tímabundið en lækkaði aftur í upphafi 10. áratugarins. Undanfarinn áratug hefur frjósemin verið fremur stöðug, um 2 börn á ævi hverrar konu.  

Í allflestum löndum Evrópu er frjósemi umtalsvert lægri en á Íslandi og verður fólksfjölgun þar einkum vegna streymis aðkomufólks. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Evrópusambandsins er einungis eitt Evrópuland með meiri frjósemi en Ísland, þ.e. Tyrkland en þar var frjósemi 2,2.

Þótt alls staðar hafi dregið úr frjósemi hefur lækkunin verið misjafnlega ör eftir löndum. Á 8. og 9. áratug síðustu aldar var lækkun frjósemi örust í löndum kaþólikka í sunnanverðri Evrópu. Árið 1970 var frjósemi á Ítalíu 2,4 og á Spáni 2,9. Við lok 9. áratugarins var frjósemi í þessum löndum lægri en nokkurs staðar annars staðar í Evrópu (um 1,3). Nú mælist frjósemi aftur á móti minnst í löndum Austur-Evrópu. Í flestum þessara landa var frjósemi nálægt tveimur um 1990 en í kjölfar breytinga á stjórnarfari í ráðstjórnarríkjunum og öðrum löndum Austur-Evrópu lækkaði frjósemi ört í þessum löndum. Í nær öllum löndum Austur-Evrópu er frjósemi nú á bilinu 1,2-1,3.

Athygli vekur að samanborið við önnur Evrópulönd er frjósemi á Norðurlöndum há. Í Danmörku og Svíþjóð hefur lítil sem engin breyting orðið á frjósemi síðan 1970 en þá var frjósemi þar með því minnsta í Evrópu. Nú er frjósemi á Norðurlöndum utan Íslands á bilinu 1,7-1,8. Hér á landi sem og annars staðar á Norðurlöndum hefur lækkun frjósemi á síðasta áratug verið mun hægari en víðast hvar annars staðar í Evrópu.

Lækkuð frjósemi hefur haldist í hendur við hækkaðan meðalaldur mæðra. Á árunum 1966-1970 var meðalaldur frumbyrja aðeins 21,3 ár en er nú 26 ár (2001-2005) (sbr. mynd 3). Sífellt fátíðara verður að konur eigi börn áður en þær ná 25 ára aldri. Fram undir 1980 var algengasti barneignaraldurinn 20–24 ár en lækkun fæðingartíðni er mest áberandi í þessum aldurshóp kvenna (mynd 4). Unglingamæðrum hefur einnig fækkað jafnt og þétt á þessu tímabili. Samanborðið við nágrannalöndin var fæðingartíðni hér á landi lengi vel afar há meðal kvenna undir tvítugu. Árin 1961-1965 var hún yfir 83,9 af 1.000 í aldurshópnum 15–19 ára en er aðeins 16,5 af 1.000 árin 2001-2005. Nú er algengasti barneignaraldurinn 25–29 ára en í þeim aldurshópi hefur fæðingartíðnin haldist stöðug undangengin 30 ár. Í aldurshópunum 30–34 ára og 35–39 ára lækkaði fæðingartíðni upp úr 1960. Undanfarin ár hefur frjósemi kvenna í þessum aldurshópum hækkað lítilsháttar (mynd 5). 
Aðeins rúmlega þriðjungur barna á Íslandi fæðist innan vébanda hjónabands (34,3%). Þetta hlutfall hefur lækkað lítils háttar frá því í upphafi 10. áratugarins, úr 43,6% 1991. Hlutfall þeirra barna sem fæðast innan óvígðrar sambúðar foreldra hefur aftur á móti haldist stöðugt og er nú 50,8%. Börnum sem fæðast utan skráðrar sambúðar hefur fjölgað hlutfallslega, þau voru um 10,2% allra barna sem fæddust á árabilinu 1991-1995 en eru nú 14,4%. 

Talnaefni