FRÉTT MANNFJÖLDI 09. MAÍ 2023

Fjöldi lifandi fæddra barna á Íslandi árið 2022 var 4.391 sem er mikil fækkun frá árinu 2021 þegar 4.879 börn fæddust. Er þetta mesta fækkun á lifandi fæddum börnum sem hefur átt sér stað á milli ára frá 1838 eða fækkun upp á 488 börn. Alls fæddust 2.301 drengur og 2.090 stúlkur en það jafngildir 1.101 dreng á móti hverjum 1.000 stúlkum.

Helsti mælikvarði á frjósemi er fjöldi lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu. Yfirleitt er miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til að viðhalda mannfjölda til lengri tíma litið. Árið 2022 var frjósemi íslenskra kvenna 1,59 og hefur hún aldrei verið minni frá því að mælingar hófust árið 1853. Árið 2018 var frjósemi 1,71 en það er næst minnsta frjósemi sem mælst hefur hér á landi. Frjósemi hefur ekki farið upp fyrir 2,0 í tíu ár hér á landi en síðast gerðist það árið 2012 þegar hún var 2,04.

Aldursbundin fæðingartíðni aldrei verið lægri á meðal mæðra undir tvítugu
Fæðingartíðni mæðra undir tvítugu var í fyrra 3,0 börn á hverjar 1.000 konur. Það er afar lágt í samanburði við tímabilið 1961-1965 þegar hún fór hæst en þá fæddust 84 börn á hverjar 1.000 konur undir tvítugu. Fyrir utan síðustu tvö ár þarf að fara aftur til ársins 1870 til að finna annað ár þar sem fæðingartíðni mæðra undir tvítugu fór undir fjögur börn á hverjar 1.000 konur.

Frá árinu 1932 hefur aldursbundin fæðingartíðni alltaf verið hæst í aldurshópunum 20-24 ára og 25-29 ára en árið 2019 varð sú breyting að fæðingartíðnin reyndist hæst innan aldurshópsins 30-34 ára. Það sama átti við um árið 2022 en þá fæddust 105,1 barn á hverjar 1.000 konur á aldursbilinu 30-34 ára en 99,0 á aldursbilinu 25-29 ára og er það í fyrsta sinn sem fæðingartíðni fer undir 100 á því aldursbili.

Meðalaldur mæðra hefur hækkað jafnt og þétt síðustu áratugi og eignast konur nú sitt fyrsta barn að jafnaði síðar á ævinni en áður. Frá byrjun sjöunda áratugarins og fram yfir 1980 var meðalaldur frumbyrja undir 22 árum en eftir miðjan níunda áratuginn hefur meðalaldur farið hækkandi og var 28,9 ár í fyrra.

Aðferðir
Tölur um fæðingar ná til allra barna mæðra sem eiga lögheimili á Íslandi, hvort heldur sem þau eru fædd innanlands eða utan. Börn sem fædd eru á Íslandi af mæðrum sem eiga lögheimili erlendis eru fyrir vikið ekki talin með.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1030 , netfang mannfjoldi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.