FRÉTT MANNFJÖLDI 01. JÚNÍ 2022

Nokkuð misjafnt var hvert eðli og áhrif fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins var á Norðurlöndunum þegar horft er til heilsufarslegra og efnahagslegra mælikvarða.

Á tímabilinu frá mars 2020 fram á þriðja ársfjórðung 2021 jókst dánartíðni umtalsvert í Svíþjóð á meðan hún hækkaði smávægilega í Finnlandi og Danmörku en dróst hins vegar saman á Íslandi. Í Noregi var dánartíðni lægri 2020 miðað við 2019 og engin breyting varð á milli 2020 og 2021. Uppsöfnuð dánartíðni vegna faraldursins var þó langhæst í Svíþjóð þegar öll Norðurlöndin eru borin saman.

Efnahagsleg áhrif kórónuveirufaraldursins voru greinileg á öllum Norðurlöndunum þar sem verg landsframleiðsla dróst saman um 6-8% á öðrum ársfjórðungi 2020 en hækkaði svo á þriðja ársfjórðungi.

Áhrif kórónuveirufaraldursins á útgjöld heimila komu sterklega fram á öðrum ársfjórðungi 2020 og voru áhrifin mest á Íslandi af Norðurlöndunum. Að auki voru útgjöld íslenskra heimila lengur að komast á svipað ról og var fyrir fyrstu bylgju faraldursins.

Frá upphafi kórónuveirufaraldursins hefur orðið samdráttur í fæðingum í flestum ríkjum heimsins. Leitni í fjölda fæðinga hefur hins vegar verið upp á við á Norðurlöndunum. Til dæmis hefur fæðingartíðni í Finnlandi farið stöðugt minnkandi frá árinu 2010 en það snerist við á meðan á fyrstu bylgju faraldursins stóð.

Þetta og margt fleira má lesa úr nýrri skýrslu norrænu hagstofanna um áhrif fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins á Norðurlöndin.

The Nordics during the first phases of COVID-19 — Skýrslan í heild

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1030 , netfang mannfjoldi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.