Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands voru lögskilnaðir 560 árið 2005. Sambúðarslit voru 631 en þar er átt við tilkynningu um slit formlegrar sambúðar hjá þjóðskrá.
Meðal þeirra 631 sambúðarslita sem urðu á árinu 2005 voru 364 fjölskyldur með börn undir 18 ára aldri og af þeim 560 hjónum sem skildu að lögum voru 342 hjón með börn. Alls voru börn undir 18 ára aldri úr lögskilnuðum og sambúðarslitum 1.145 á árinu 2005.
Frá því um mitt ár 1992 hafa foreldrar hér á landi átt þess kost að fara sameiginlega með forsjá barna sinna eftir skilnað. Á allra síðustu árum hefur færst í vöxt að foreldarar nýti sér þetta fyrirkomulag. Framan af var algengast að móðir færi ein með forsjá og árið 1994 átti þetta við um 70,6% barna úr lögskilnuðum og 65,3% barna úr sambúðarslitum. Það ár var sameiginleg forsjá valin í einungis 22,8% og 31,0% tilvika. Undanfarin fjögur ár hefur verið algengast að forsjá sé í höndum beggja foreldra og árið 2005 átti þetta við um 72,8% barna úr lögskilnuðum. Sameiginleg forsjá er einnig algengust eftir sambúðarslit; árið 2005 var sameiginleg forsjá valin í meira en þremur af hverjum fjórum tilvikum (74,0%).
Talnaefni