FRÉTT MANNFJÖLDI 06. JÚNÍ 2007

Samkvæmt bráðabirgðatölum um skilnaði og sambúðarslit 2006, skildu 498 hjón að lögum og 577 pör slitu sambúð. Með sambúðarslitum er átt við tilkynningu um slit sambúðar skráðri hjá Þjóðskrá.

Meðal þeirra 577 sambúðarslita sem urðu á árinu 2006 voru  357 fjölskyldur með börn undir 18 ára aldri og af 498 lögskilnuðum voru 327 barnafjölskyldur. Alls voru börn úr sambúðarslitum og lögskilnuðum 1.100.

 

Allt frá árinu 1992 hafa foreldrar hér á landi átt þess kost að fara sameiginlega með forsjá barna sinna eftir skilnað. Á allra síðustu árum hefur færst í vöxt að foreldarar nýti sér þetta fyrirkomulag. Framan af var algengast að móðir færi ein með forsjá og árið 1994 átti þetta við um 70,6% barna úr lögskilnuðum og 65,3% barna úr sambúðarslitum. Það ár var sameiginleg forsjá einungis valin í 22,8% og 31,0% tilvika. Undanfarin fimm ár hefur verið algengast að forsjá sé í höndum beggja foreldra og árið 2006 átti þetta við um nær þrjú af hverjum fjórum börnum úr lögskilnuðum (72,5%). Sameiginleg forsjá er talsvert algengari eftir sambúðarslit en lögskilnaði; árið 2006 völdu foreldrar sameiginlega forsjá í 84,9% tilvika þegar um sambúðarslit var að ræða.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.