FRÉTT MANNFJÖLDI 27. MAÍ 2009

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands gengu 1.642 pör í hjónaband á Íslandi árið 2008. Auk þess staðfestu 18 pör samvist, tólf pör karla og sex kvenna. Á sama tíma skráðu sig 1.877 pör af gagnstæðu kyni í óvígða sambúð og auk þess 10 pör karla og 20 kvenna. Lögskilnaðir árið 2008 voru 549 og 9 pör í staðfestri samvist skildu að lögum. Á árinu skráðu 634 pör af gagnstæðu kyni sig úr sambúð og 8 samkynja pör.

Hjónabönd og sambúð
Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands gengu 1.642 pör í hjónaband á Íslandi árið 2008, þar af voru 332 borgaralegar vígslur. Giftingartíðni reiknuð sem hjónavígslur á 1.000 íbúa var 5,1 árið 2008 samanborið við 5,8 árið á undan. Giftingartíðni var 5,4 á hverja 1.000 íbúa að meðaltali árin 2001-2005 , samanborið við 5,6 árin 1996-2000 og 4,7 næstu fimm ár þar á undan. Giftingartíðni lækkaði ört frá miðjum 8. áratugnum og fram undir 1990. 

Langflest hjónabönd eiga sér stað að undangenginni óvígðri sambúð. Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar bjuggu nær 86% allra hjónaefna saman í sambúð áður en þau festu ráð sitt. Árið 2008 skráðu sig 1.877 pör af gagnstæðu kyni í óvígða sambúð hjá Þjóðskrá. Þetta samsvarar 5,9 af hverjum 1.000 íbúum. Nýskráningar sambúðar reiknast því vera heldur fleiri en hjónavígslur. Einstaklingar eru talsvert yngri við stofnun sambúðar en hjúskapar. Meðalaldur við stofnun sambúðar var 31,0 ár meðal karla og 28,6 ár meðal kvenna samanborið við að meðalgiftingaraldur áður ókvæntra karla var 34,3 og kvenna 32,1 ár á árinu 2008.

Lögskilnaðir og sambúðarslit
Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands urðu 549 lögskilnaðir árið 2008. Tíðni lögskilnaða á 1.000 íbúa var þá 1,7. Skilnaðartíðni hefur lítið breyst undanfarin aldarfjórðung. Skilnaðartíðni hækkaði úr um það bil 1 í 2 á hverja 1.000 íbúa á 8. áratug 20. aldar en hefur verið rétt um 2 á hverja 1.000 íbúa frá þeim tíma. Uppsafnað skilnaðarhlutfall gefur oft betri mynd af tíðni skilnaða heldur en skilnaðartíðni, en þetta hlutfall mælir hversu mörg hjónabönd enda með skilnaði. Uppsafnað skilnaðarhlutfall var 37,2% árið 2008 miðað við 35,8% árið 2007.

Árið 2008 áttu sér stað 634 sambúðarslit samkvæmt bráðabirgðatölum. Í meira en helmingi allra tilvika (55,2%) hafði sambúð varað í minna en þrjú ár þegar henni var slitið. Sambúð varir talsvert skemur en hjónaband en 11,1% hjónabanda hafði varað í minna en þrjú ár þegar lögskilnaður fór fram. Hjónabönd sem enduðu með lögskilnaði árið 2008 höfðu að meðaltali enst í 12,1 ár.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.