FRÉTT MANNFJÖLDI 31. MAÍ 2006

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands gengu 1.607 pör í hjónaband á Íslandi árið 2005. Þrettán pör staðfestu samvist, sex pör kvenna og sjö pör karla. Lögskilnaðir voru 560.

Hjónabönd og sambúðir
Líkt og annars staðar á Norðurlöndum er giftingartíðni fremur lág hér á landi. Giftingartíðni reiknuð sem hjónavígslur á 1.000 íbúa var 5,4 árið 2005 samanborið við 5,2 árið á undan. Samkvæmt meðaltali áranna 2001-2005 var giftingartíðni 5,4 á hverja 1.000 íbúa, samanborið við 5,6 árin 1996-2000 og 4,7 næstu fimm árin þar á undan. Giftingartíðni lækkaði ört frá miðjum 8. áratugnum og fram undir 1990. Frá því um miðja 20. öldina til 1975 var giftingartíðni þannig rétt um 8 á hverja 1.000 íbúa. Lægst varð giftingartíðni árin 1991-1995 (4,7). 

Langflest hjónabönd hér á landi eiga sér stað að undangenginni óvígðri sambúð og samkvæmt upplýsingum á hjónavígsluskýrslum bjuggu nær níu af hverjum tíu hjónaefnum saman áður en þau festu ráð sitt. Árið 2005 skráðu 1.774 pör sig í óvígða sambúð hjá þjóðskrá. Stofnaðar sambúðir reiknast því vera heldur fleiri en hjónavígslur eða 6,0 á 1.000 íbúa. Árin 2001-2005 var tíðasti aldur ókvæntra karla við stofnun sambúðar 25 ár samanborið við 23 ár meðal ógiftra kvenna.

Tilvist óvígðrar sambúðar fyrir hjónaband hefur að vonum í för með sér fremur háan giftingaraldur og hefur giftingaraldur hækkað verulega á undanförnum áratugum. Tíðasti giftingaraldur ókvæntra karla var 29 ár árin 2001-2005 samanborið við 21 ár á árabilinu 1961-1965 og giftingaraldur ógiftra kvenna 27 ár samanborið við 19 ár á árabilinu 1961-1965.

Lögskilnaðir
Tíðni lögskilnaða á 1.000 íbúa var 1,9 árið 2005. Skilnaðartíðni mæld sem fjöldi skilnaða á 1.000 íbúa hefur lítið breyst undanfarin aldarfjórðung, en á árabilinu 1961-1975 hækkaði skilnaðartíðni fremur ört. Skilnaðartíðni var 0,8 á 6. áratug aldarinnar en náði hámarki um miðbik 9. áratugarins. Síðan þá hefur skilnaðartíðni heldur farið lækkandi. Algengast er að lögskilnaður fari fram á fyrstu árum hjónabands. Nær þriðjungur þeirra sem skildu að lögum árin 2001-2005 höfðu verið giftir skemur en sex ár og helmingur skemur en tíu ár. Samanborið við hin Norðurlöndin er skilnaðartíðni hér á landi lág. Í Danmörku er skilnaðartíðni hæst af Norðurlöndum, rétt tæplega 3 á hverja 1.000 íbúa. 

Hinn hefðbundni mælikvarði á skilnaði (fjöldi skilnaða á hverja 1.000 íbúa) gefur nokkuð misvísandi mynd af varanleika hjónabands. Þetta stafar af því að fjöldi giftinga hefur augljós áhrif á mögulegan fjölda lögskilnaða. Þótt skilnaðartíðni í tveimur samfélögum sé þannig jafnhá merkir það ekki endilega að hlutfallslega jafnmörg hjónabönd endi með skilnaði. Af augljósum ástæðum er þó erfitt að leggja mat á hlutfall hjónabanda sem enda með skilnaði. Sú aðferð sem kemst næst þessu er uppsafanað skilnaðarhlutfall eftir lengd hjónabands á viðmiðunarárinu (total divorce rate). Þessi aðferð bendir til þess að tæplega 40% hjónabanda á Íslandi endi með skilnaði. Enn er hér um lægra hlutfall að ræða en í nágrannalöndunum. Næstir Íslendingum eru Normenn og Danir en hjá þessum grönnum okkar enda 47% hjónabanda með skilnaði. Svíar eru líklegastir Norðurlandabúa til þess að skilja en þar enda 53% hjónabanda með skilnaði.      

Nánar verður fjallað um skilnaði á Íslandi í frétt hinn 14. júní næstkomandi. Þar verður gerð grein fyrir forsjá barna eftir lögskilnað og sambúðarslit.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.