FRÉTT MANNFJÖLDI 19. MARS 2013

Hinn 1. janúar 2013 voru 25.926 innflytjendur á Íslandi eða 8,1% mannfjöldans. Það er lítilsháttar fjölgun frá því í fyrra þegar þeir voru 8,0% landsmanna (25.442). Annarri kynslóð innflytjenda fjölgaði nokkuð á milli ára, voru 2.876 í fyrra en 3.204 nú. Samanlagt var fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda 9,1% af mannfjöldanum, en það er einnig lítilsháttar fjölgun frá því í fyrra þegar hlutfallið var 8,9%. Einstaklingum með erlendan bakgrunn, öðrum en innflytjendum, fjölgaði einnig lítillega milli ára, voru 6,2% mannfjöldans í fyrra en 6,4% nú.

Innflytjandi er einstaklingur sem er fæddur erlendis og á foreldra sem einnig eru fæddir erlendis, svo og báðir afar hans og báðar ömmur. Önnur kynslóð innflytjenda eru einstaklingar sem fæddir eru á Íslandi og eiga foreldra sem báðir eru innflytjendur. Fólk er talið hafa erlendan bakgrunn ef annað foreldrið er erlent.


Pólverjar fjölmennastir innflytjenda
Eins og síðustu ár eru Pólverjar langfjölmennasti hópur innflytjenda hér á landi. Hinn 1. janúar síðastliðinn var 9.371 einstaklingur upprunninn frá Póllandi eða 36,1% allra innflytjenda. Pólskir karlar voru 39,8% allra karlkyns innflytjenda eða 4.909 af 12.339. Pólskar konur voru 32,8% kvenkyns innflytjenda. Næstfjölmennasti hópur innflytjenda er frá Litháen, 5,4%, en 5,3% frá Filippseyjum.

Á Vestfjörðum og Suðurnesjum eru yfir 12% mannfjöldans innflytjendur
Hinn 1. janúar síðastliðinn bjuggu 19.486 fyrstu og annarrar kynslóðar innflytjendur á höfuðborgarsvæðinu, 66,9% allra innflytjenda á landinu. Hlutfall innflytjenda af mannfjölda var hæst á Vestfjörðum, en þar eru 12,7% innflytjendur af fyrstu eða annarri kynslóð. Næsthæst er hlutfallið á Suðurnesjum þar sem 12,3% mannfjöldans eru innflytjendur eða börn þeirra. Lægst er hlutfallið á Norðurlandi vestra, en þar eru um 4,3% mannfjöldans innflytjendur eða börn þeirra.

 

413 einstaklingar fengu íslenskt ríkisfang árið 2012
Í fyrra fengu 413 einstaklingar íslenskan ríkisborgararétt en 370 árið 2011. Fjölgaði því einstaklingum sem fengu íslenskt ríkisfang á milli ára í fyrsta sinn frá árinu 2008. Árið 1991 fengu fleiri karlar en konur íslenskt ríkisfang, en á hverju ári eftir það hafa konur verið í meirihluta nýrra íslenskra ríkisborgara. Svo var og í fyrra þegar 246 konur fengu íslenskan ríkisborgararétt en 167 karlar.

Talnaefni


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.