Hinn 1. janúar 2012 voru 25.442 innflytjendur á Íslandi eða 8,0% mannfjöldans. Það er fækkun frá árinu 2011, þegar innflytjendur voru 8,1% landsmanna og 25.693 alls. Nokkuð hefur fjölgað í annarri kynslóð innflytjenda á milli áranna 2011 og 2012 eða úr 2.582 í 2.876. Samanlagt var fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda 8,9% af mannfjöldanum 1. janúar 2012, sem er það sama og hún var 2011. Einstaklingum með erlendan bakgrunn, öðrum en innflytjendum, fjölgaði lítillega frá 2011 til ársins 2010, úr 6,1% í 6,2% mannfjöldans.

Innflytjandi er einstaklingur sem er fæddur erlendis og af foreldrum sem eru líka fæddir erlendis, sem og báðir afar og ömmur. Önnur kynslóð innflytjenda eru einstaklingar sem eru fæddir á Íslandi af foreldrum sem eru báðir innflytjendur. Fólk er talið með erlendan bakgrunn ef annað foreldrið er erlent.

 


Pólverjar fjölmennastir innflytjenda
Eins og síðustu ár voru Pólverjar langfjölmennasti hópur innflytjenda hér á landi árið 2012. Alls eru 9.228 einstaklingar upprunnir frá Póllandi eða 36,3% allra innflytjenda. Pólskir karlar voru 40,1% allra karlkyns innflytjenda 1. janúar 2012, eða 4.886 af 12.190. Pólskar konur voru 32,8% kvenkyns innflytjenda. Næstfjölmennasti hópur innflytjenda fæddist í Litháen, 5,6% en 5,4% innflytjenda fæddust á Filippseyjum.

Kynjahlutfall innflytjenda
Kynjahlutfall, reiknað sem fjöldi karla á hverjar 1.000 konur, hefur sveiflast mikið á síðustu árum meðal innflytjenda. Árið 1996 voru konur í miklum meirihluta. Þá voru 607 karlar á hverjar 1.000 konur meðal innflytjenda. Kynjahlutfallið jafnaðist þó jafnt og þétt fram til ársins 2005. Frá og með 2006 snerist kynjahlutfallið við og náði hæst 1.353 körlum á hverjar 1.000 konur árið 2007. Hinn 1. janúar 2012 hafði kynjahlutfallið aftur fallið í fyrra far og konur orðnar fjölmennari en karlar meðal innflytjenda. Þá voru 920 innflytjendakarlar búsettir á Íslandi á hverjar 1.000 konur. Frá 1996 til 2012 hefur kynhlutfall þeirra sem hafa engan erlenda bakgrunn farið hæst 1.015 árin 2008 og 2009 og læst 1.011 árið 2003.


Hinn 1. janúar 2012 bjuggu 18.940 fyrstu og annarrar kynslóðar innflytjenda á höfuðborgarsvæðinu, eða 66,9% innflytjenda sem búsettir voru á landinu. Hlutfallið af mannfjölda var hæst á Vestfjörðum, en þar eru 13,4% mannfjöldans innflytjendur af fyrstu eða annarri kynslóð. Næst hæst er hlutfallið á Suðurnesjunum, þar sem 12,4% mannfjöldans eru innflytjendur eða börn þeirra. Lægst er hlutfallið á Norðurlandi, en þar eru um 5% mannfjöldans innflytjendur eða börn þeirra.

Talnaefni