FRÉTT MANNFJÖLDI 02. DESEMBER 2009

Hinn 1. janúar 2009 voru 28.644 innflytjendur á Íslandi eða 9,0% mannfjöldans. Það er mikil aukning frá árinu 1996 þegar innflytjendur voru einungis 2,0% landsmanna eða 5.357 alls. Á sama tímabili hefur þeim sem hafa engan erlendan bakgrunn fækkað hlutfallslega úr 93,7% í 84,6%.

Tæpur þriðjungur innflytjenda árið 1996 var frá Norðurlöndunum en einungis 6,3% í ársbyrjun 2009. Innflytjendum frá öðrum Evrópulöndum en Norðurlöndum hefur hins vegar fjölgað mjög á sama tímabili. Þeir voru 39,8% allra innflytjenda árið 1996 en 72,9% í byrjun árs 2009. Hlutur innflytjenda frá öðrum heimsálfum en Norður-Ameríku hefur staðið í stað. Innflytjendum frá Norður-Ameríku fækkaði mikið eða úr 8,2% 1996 í 2,6% árið 2009.

Árið 2009 voru Pólverjar langfjölmennasti hópur innflytjenda hér á landi. Alls 11.575 einstaklingar eiga uppruna í Póllandi eða 40,4% allra innflytjenda. Pólskir karlar eru tæplega helmingur allra karlkyns innflytjenda árið 2009, eða 46,2% en pólskar konur eru 33,6% innflytjenda kvenna. Næstflestir hafa fæðst í Litháen, 5,5%, en Þjóðverjar þar á eftir, 4,6%.

Innflytjendur eftir fæðingarlandi 1. janúar 2009 (helstu lönd)
  Alls Karlar Konur
Alls 28.644 15.499 13.145
Pólland 11.575 7.158 4.417
Litháen 1.572 937 635
Þýskaland 1.325 500 825
Filippseyjar 1.313 422 891
Taíland 887 209 678


Karlar voru fleiri en konur meðal innflytjenda árið 2009, en nokkuð dró úr þeim mun frá árinu 2008. Fram til ársins 2005 voru konur þó jafnan fleiri en karlar í hópi innflytjenda.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.