Hinn 1. janúar 2010 var 26.171 innflytjandi á Íslandi eða 8,2% mannfjöldans. Það er fækkun frá árinu 2009, þegar innflytjendur voru 9,0% landsmanna og 28.644 alls. Nokkuð hefur fjölgað í annarri kynslóð innflytjenda á milli áranna 2009 og 2010 eða úr 1.898 í 2.254. Samanlagt var fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda 8,9% af mannfjöldanum 1. janúar 2010, en var 9,6% árið 2009. Einstaklingum með erlendan bakgrunn, öðrum en innflytjendum, fjölgaði lítillega frá 2009 til ársins 2010, úr 5,8% í 6% mannfjöldans.
Innflytjandi er einstaklingur sem er fæddur erlendis og af foreldrum sem eru líka fæddir erlendis, sem og báðir afar og ömmur. Önnur kynslóð innflytjenda eru einstaklingar sem eru fæddir á Íslandi af foreldrum sem eru báðir innflytjendur. Fólk með erlendan bakgrunn eru þeir sem eru fæddir erlendis af íslensku foreldri eða fæddir á Íslandi og annað foreldrið útlent.
Pólverjar fjölmennastir innflytjenda
Eins og síðustu ár voru Pólverjar langfjölmennasti hópur innflytjenda hér á landi árið 2010. Alls eru 10.058 einstaklingar upprunnir frá Póllandi eða 38,4% allra innflytjenda. Pólskir karlar voru 43,5% allra karlkyns innflytjenda 1. janúar 2010, eða 5.719 af 13.162. Pólskar konur voru 33,4% kvenkyns innflytjenda. Næstfjölmennasti hópur innflytjenda fæddist í Litháen, 5,5% en 5,0% innflytjenda fæddust á Filippseyjum.
Kynjahlutfall innflytjenda
Kynjahlutfall, reiknað sem fjöldi karla á hverjar 1.000 konur, hefur sveiflast mikið á síðustu árum meðal innflytjenda. Árið 1996 voru konur í miklum meirihluta. Þá voru 607 karlar á hverjar 1.000 konur meðal innflytjenda. Frá og með 2006 snerist kynjahlutfallið við og náði hæst 1.353 körlum á hverjar 1.000 konur árið 2007. Þann 1. janúar 2010 var kynjahlutfallið orðið nánast jafnt, eða 1.012 karlar á hverjar 1.000 konur og var orðið nánast hið sama og hjá hópnum með engan erlendan bakgrunn, 1.013 karlar á hverjar 1.000 konur.
Talnaefni