Hinn 1. janúar 2021 voru kjarnafjölskyldur á landinu alls 86.300 og hafði fjölgað um 1.632 frá árinu áður. Yfir sama tímabil fjölgaði barnafjölskyldum um 840 og barnlausum hjónaböndum og sambúðum um 713 á meðan að einhleypum fjölgaði um 401. Sjá má skiptingu kjarnafjölskyldna eftir fjölskyldugerð á meðfylgjandi mynd.

Kjarnafjölskyldur 0 – 24 ára – ný skilgreining
Fram til þessa hefur Hagstofa Íslands notast við lagalega skilgreiningu á kjarnafjölskyldum. Til þess að sýna fjölskyldugerð með öðrum og nákvæmari hætti en áður hefur Hagstofan unnið að nýrri skilgreiningu á kjarnafjölskyldum um nokkurt skeið. Í fyrri skilgreiningu, sem áfram verður birt, töldust einstaklingar 18 ára og eldri ekki lengur með fjölskyldum sínum heldur sem einstaklingar utan fjölskyldu. Þetta gerðist jafnvel án þess að stofnað væri til nýrrar fjölskyldu eða að flutningur einstaklingsins frá kjarnafjölskyldu ætti sér stað. Nýja skilgreiningin færir aldursmörkin upp að 25 árum nema ef einstaklingar stofna eigin fjölskyldu í millitíðinni eða flytja lögheimili sitt frá sinni upprunalegu fjölskyldu.

Ný skilgreining hefur aðallega þau áhrif að tilfærsla verður í fjölda þeirra sem tilheyra einstaklingum, hjónaböndum án barna og óvígðri sambúð án barna. Einstaklingarnir færast yfir í önnur fjölskylduform með börn. Árið 2021 færðust 38.016 manns úr flokkunum einstaklingar, hjónabönd án barna og óvígðri sambúð án barna miðað við eldri skilgreiningu á kjarnafjölskyldu yfir í flokkana hjónaband með börn (27.339), óvígð sambúð með börn (3.293) og mæður eða feður með börn (7.384).

Framfærsluhlutfall hækkaði lítillega
Á undanförnum árum og áratugum hefur aldurssamsetning landsmanna breyst töluvert. Almennt má segja að börnum hafi fækkað hlutfallslega af heildarmannfjöldanum en eldra fólki fjölgað. Fjöldi fólks á vinnualdri (15–64 ára) hefur nánast staðið í stað undanfarin ár. Í ársbyrjun 2021 var fólk á þessum aldri 66,5% af heildarmannfjöldanum en 66,7% árið 2011. Á síðastliðnum tíu árum hefur hlutfall fólks á aldrinum 0–14 ára lækkað úr 20,1% af þjóðinni í 18,7% en hlutfall fólks sem er 65 ára og eldri hækkað úr 12,3% í 14,7%. Framfærsluhlutfall var 50,2% í ársbyrjun en 49,6% í fyrra. Framfærsluhlutfall er hlutfall ungs fólks (14 ára og yngra) og eldra fólks (65 ára og eldra) af fólki á vinnualdri (15–64 ára). Hækkun þessa hlutfalls stafar einkum af því að fólki á vinnualdri fækkar hlutfallslega.

Um gögnin
Til lagalegrar kjarnafjölskyldu teljast hjón og fólk í óvígðri sambúð, börn sem búa hjá þeim 17 ára og yngri og einhleypir karlar og konur sem búa með börnum 17 ára og yngri. Til kjarnafjölskyldu 0-24 ára teljast hjón og fólk í óvígðri sambúð, börn sem búa hjá þeim 24 ára og yngri og einhleypir karlar og konur sem búa með börnum 24 ára og yngri. Hagstofan metur mannfjöldann 1. janúar ár hvert á grundvelli upplýsinga um breytingar á lögheimili í íbúaskrá Þjóðskrár.

Framfærsluhlutfall er annars vegar reiknað sem hlutfall aldraðra (65 ára og eldri) af fólki á vinnualdri 15–64 ára (e. old age dependency ratio) og hins vegar sem hlutfall barna og ungmenna (0-14 ára) af sama hópi (e. young age dependency ratio). Þriðja útgáfan er heildarframfærsluhlutfall en það er hlutfall beggja hópa (0-14 ára og 65 ára og eldri) af 15-64 ára (e. total dependency ratio).

Talnaefni