FRÉTT MANNFJÖLDI 31. MAÍ 2011

Hagstofa Íslands hefur uppfært mannfjöldaspá frá 2010 fyrir árabilið 2011–2060. Forsendur spárinnar eru í aðalatriðum þær sömu og lýst var í  Hagtíðindum 13. júlí 2010. Nokkrar breytingar hafa þó verið gerðar á reiknilíkönum fyrir búferlaflutninga.

Í miðspá Mannfjöldaspárinnar er gert ráð fyrir að mannfjöldinn í lok spátímabilsins verði 433 þúsund. Samkvæmt lágspánni yrði mannfjöldinn 384 þúsund, en 491 þúsund samkvæmt háspánni.

Aldurskipting landsmanna breytist mjög á tímabilinu. Fjöldi þeirra sem eru 65 ára og eldri eykst mjög í hlutfalli af fólki á vinnualdri (20–64 ára) en yngra fólki fækkar. Breyting á aldurssamsetningu mannfjöldans sést mjög vel þegar litið er á aldurspíramídann í upphafi og lok spátímabilsins. Á myndinni er þó aðeins sýnd aldurssamsetning samkvæmt miðspánni.

Í öllum spáafbrigðum er gert ráð fyrir jákvæðum flutningsjöfnuði til langs tíma. Sá flutningsjöfnuður er borinn uppi af erlendum ríkisborgurum, en til lengri tíma litið flytja jafnan fleiri íslenskir ríkisborgarar til útlanda en snúa heim. Sé gert ráð fyrir að á hverju ári flytji jafnmargir erlendir ríkisborgarar til landsins og frá því yrði mannfjöldaþróun landsins talsvert önnur en hér er gert er ráð fyrir í meginafbrigðum mannfjöldaspárinnar. Mannfjöldinn myndi þá mestur vera árið 2035 eða rúmlega 343 þúsund einstaklingar en falla síðan til 2060 þegar íbúar landsins yrðu álíka margir og í upphafi tímabilsins.

Búferlaflutningar til og frá landinu skipta miklu máli, einkum um mannfjöldaþróun til næstu ára. Sterk fylgni er við mikilvægar hagstærðir, þ.e. verga landsframleiðslu og atvinnuleysi, en misjafnt eftir kyni og ríkisfangi. Þá skiptir sókn íslenskra ríkisborgara í nám erlendis, eða einfaldlega ævintýraþrá ungs fólks, miklu máli. Í mannfjöldaspánni 2011 er stuðst við stærðfræðileg líkön þar sem hermt er eftir þessum áhrifum en notuð er síðasta þjóðhagspá Hagstofunnar vegna spár um hagvöxt og atvinnuleysi fram til 2016. Fyrir þennan hluta spárinnar eru ekki gerð nein afbrigði, en á meðfylgjandi mynd er líkanið teiknað upp með efri og neðri vikmörkum. Vikmörkin ber ekki að líta á sem há- eða lágspá, heldur sýna þau bilið sem líklegast er (90% öryggisstig) að flutningsjöfnuðurinn verði á næstu árum. Til samanburðar er sýnd spáin frá 2010.

 

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.