FRÉTT MANNFJÖLDI 18. NÓVEMBER 2015

Hagstofa Íslands hefur birt mannfjöldaspá 2015-2065 sem gerir grein fyrir áætlaðri stærð og samsetningu mannfjölda í framtíðinni. Spáin er byggð á tölfræðilíkönum fyrir búferlaflutninga, frjósemi og dánartíðni.

Samkvæmt miðspánni er má ætla að íbúar verði 437 þúsund árið 2065 bæði vegna fólksflutninga og náttúrulegrar fjölgunar. Til samanburðar var mannfjöldinn 329 þúsund 1. janúar 2015. Í háspánni verða íbúar 513 þúsund í lok spátímabilsins en 372 þúsund samkvæmt lágspánni.

Spáafbrigðin byggja á mismunandi forsendum um hagvöxt, frjósemishlutfall og búferlaflutninga.

Fæddir verða fleiri en dánir á hverju ári spátímabilsins í mið- og háspá. Samkvæmt lágspánni verða dánir hins vegar fleiri en fæddir á hverju ári frá og með árinu 2045. Meðalævi karla og kvenna við fæðingu mun halda áfram að lengjast. Nýfæddar stúlkur árið 2015 geta vænst þess að verða 83,5 ára gamlar en nýfæddir drengir 79,5 ára. Stúlkur sem fæðast árið 2065 geta vænst þess að verða 88,5 ára en drengir 84,3 ára.

Samkvæmt spánni verður fjöldi aðfluttra hærri en fjöldi brottfluttra ár hvert, fyrst og fremst vegna erlendra innflytjenda. Íslendingar sem flytja frá landinu verða áfram fleiri en þeir sem flytja til landsins.

Skammtímaspá um búferlaflutninga er byggð á reiknilíkönum tímaraða sem nota efnahagslega og lýðfræðilega þætti. Mynd 2 sýnir öll afbrigði flutningsjöfnuðar (fjöldi aðfluttra umfram brottflutta á hverju ári) og öryggisbil miðspárinnar.

Gert er ráð fyrir eftirfarandi breytingum á samsetningu mannfjöldans:

  • Frá árinu 2035 verður árlegur heildarfjöldi karla minni en heildarfjöldi kvenna. Þessi áhrif eru vegna lengri meðalævi kvenna en karla, en aukinn fjöldi aðfluttra karla umfram kvenna á árunum 2002 til 2006 seinkaði þessari þróun. Hlutfall karla hækkar aftur fyrir eða um árið 2050 vegna hækkandi meðalævilengdar karla.
  • Hlutfall 65 ára og eldri fer yfir 20% af heildarmannfjölda árið 2035 og yfir 25% árið 2062.
  • Frá árinu 2050 mun fólk á vinnualdri (20 til 65 ára) þurfa að styðja við hlutfallslega fleira eldra fólk en yngra.

Breyting á aldurssamsetningu mannfjöldans sést mjög vel þegar litið er á aldurspíramídann í upphafi og lok spátímabilsins. Mynd 3 sýnir aldurssamsetningu árin 2015 og 2065 samkvæmt miðspánni.

 

Mannfjöldaspá 2015–2065 - Hagtíðindi
Methodology of population projections — Hagtíðindi (Greinargerðir)
Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1030 , netfang mannfjoldi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.