Þann 1. janúar síðastliðinn var íbúafjöldi á Íslandi 364.134 sem er 2,0% fjölgun frá sama tíma árið áður eða um 7.143 einstaklinga. Þetta er eitt af því sem gert er grein fyrir í Hagtíðindum um mannfjöldaþróun ársins 2019 sem Hagstofan hefur gefið út.
Árið 2019 fæddust 4.452 börn en 2.275 manns létust. Fæddir umfram dána voru því 2.177. Þá fluttust 7.045 utan en 12.006 til landsins. Aðfluttir umfram brottflutta voru því 4.961 árið 2019, 2.974 karlar og 1.987 konur. Brottfluttir íslenskir ríkisborgarar umfram aðflutta voru 175 árið 2019.
Í upphafi árs 2020 voru 63 þéttbýlisstaðir á landinu með 200 íbúa eða fleiri. Auk þeirra voru 32 smærri byggðakjarnar með 50–199 íbúa. Alls bjuggu 342.501 í þéttbýli 1. janúar síðastliðinn og hafði þá fjölgað um 7.239 frá sama tíma ári fyrr. Í dreifbýli og smærri byggðakjörnum bjuggu alls 21.633.
Fólki fækkaði í 14 sveitarfélögum
Fjölmennasta sveitarfélagið var Reykjavík með 131.136 íbúa. Það fámennasta var hins vegar Árneshreppur þar sem bjuggu 43 íbúar. Árið 2019 fækkaði fólki í 14 sveitarfélögum en fjölgun átti sér stað á öllum landsvæðunum átta. Fólki á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði árið 2019, en 1. janúar 2020 bjuggu þar 4.803 fleiri en árið áður. Það jafngildir 2,1% fjölgun íbúa á einu ári.
Innflytjendur voru 55.354 hinn 1. janúar 2020 og voru Pólverjar fjölmennastir eða 20.477 sem samsvarar 37,0% allra innflytjenda. Annarri kynslóð innflytjenda fjölgaði milli ára, voru 5.684 1. janúar 2020 samanborið við 5.263 í fyrra.
Mannfjöldaþróun 2019 — Hagtíðindi