Samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár voru landsmenn 307.261 talsins hinn 1. desember síðastliðinn. Fólksfjölgun hefur verið óvenju mikil á árinu og annað árið í röð fjölgar íbúum um meira en 2% á einu ári. Frá 1. desember 2005 til 1. desember 2006 fjölgaði íbúum um rúmlega 2,6% samanborið við 2,1% árið áður. Jafn mikil fólksfjölgun hefur ekki orðið hér á landi frá því um miðbik sjöunda áratugarins. Í engu öðru Evrópulandi er fólksfjölgun jafn mikil og hér um þessar mundir. Undanfarin ár hefur fólksfjölgun í álfunni í heild verið um 0,2% og í einungis örfáum löndum Evrópu er árleg fólksfjölgun meiri en 1%. 

Fram undir 1980 var mikil fólksfjölgun hérlendis nær eingöngu rakin til mikillar náttúrulegrar fjölgunar (þ.e. fæddir umfram dána). Lífslíkur jukust alla 20. öldina og í samanburði við önnur Evrópulönd hefur fæðingartíðni hér á landi verið há. Við upphaf sjöunda áratugarins gat hver kona vænst þess að eignast fjögur börn á lífsleiðinni. Undanfarna ártugi hefur dregið úr frjósemi og um þessar mundir eignast konur hér á landi tvö börn um ævina að meðaltali. Mynd 1 sýnir að náttúruleg fólksfjölgun var mest hér á landi frá lokum seinni heimsstyrjaldar til miðs sjöunda áratugarins. Allan þann tíma var flutningsjöfnuður lágur og allmörg ár þessa tímabils voru þeir sem fluttust af landi brott fleiri en þeir sem fluttu til landsins.  
 
Þótt náttúruleg fólksfjölgun eigi enn talsverðan þátt í fjölgun íbúa hér á landi verður mikil fólksfjölgun undanfarin ár öðru fremur rakin til mikils aðstreymis fólks frá útlöndum. Frá 1. desember í fyrra til 1. desember í ár var fjöldi aðfluttra umfram brottflutta tæplega 5.000. Á sama tíma voru fæddir umfram dána tæplega 2.600 talsins. Náttúruleg fólksfjölgun á árinu nam tæpu 0,9% en flutningsjöfnuður var 1,7%. Til samaburðar má geta þess að árið 1957 var fólksfjölgun hér á landi jafnmikil og í ár. Þá var náttúruleg fjölgun 2,5% en flutningsjöfnuður 0,4%.  

Eins og fram hefur komið í útgáfum Hagstofu Íslands á árinu sem er að líða var meiri hluti þeirra einstaklinga sem fluttust til landsins erlendir ríkisborgarar. Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað mikið hér á landi undanfarin ár. Hlutfall þeirra af íbúum í heild er nú rétt 6%. Í þessu sambandi er þó rétt að hafa í huga að nokkur óvissa er um skráningu útlendinga í flutningum til og frá landinu. Þannig getur dregist að útlendingar sem fá dvalarleyfi séu skráðir í þjóðskrá og að sama skapi geta liðið nokkrir mánuðir þar til einstaklingar sem flytjast af landi brott eru felldir úr íbúaskrá.

 

Íbúum fjölgar nú á öllum landsvæðum nema á Vestfjörðum. Mynd 3 sýnir að heldur hefur dregið úr fólksfækkun á Vestfjörðum og þar fækkaði íbúum um 1% á árinu (frá 1. desember 2005 til 1. desember 2006) samanborið við 1,5% árlega fækkun næstu fimm árin á undan og 1,9% fækkun á síðari helmingi 10. áratugarins. Eins og undanfarin ár fækkaði íbúum í nær öllum sveitarfélögum á Vestfjörðum. Í samanburði við landsmeðaltalið fjölgaði íbúum á Norðurlandi lítið (0,4%). Fólkfjölgun einskorðaðist við Eyjafjarðarsvæðið en í öllum sveitarfélögum á Norðurlandi vestra fækkaði íbúum.    

Eins og á síðasta ári var fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu hlutfallslega minni en á nokkrum landsvæðum utan þess. Á höfuðborgarsvæðinu var fólksfjölgun á síðasta ári jafnmikil og landsmeðaltalið (2,4%). Af stærri sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu var fjölgunin mest í Hafnarfirði (5,4%) en minnst á Seltjarnarnesi (0,1%).

Undanfarin ár hefur fólksfjölgun verið mikil í sveitarfélögum sem liggja að höfuðborgarsvæðinu. Á Suðurnesjum í heild fjölgaði íbúum um rúmlega 5%. Þar var fólksfjölgun á árinu mest í Sveitarfélaginu Vogum (8,6%) en minnst í Grindvíkurbæ (2,8%). Á Suðurlandi var fólksfjölgun í heild 2,3%. Eins og mörg undanfarin ár var fólksfjölgun einna mest í Hveragerði (4,8%) og Sveitarfélaginu Árborg (4,6%). Í nokkrum sveitarfélögum á Suðurlandi fækkaði íbúum, einkum í Vestmannaeyjum en þar hefur íbúum fækkað á síðustu árum. Á þessu ári nam fækkunin 2,4%.

Miklar breytingar hafa orðið á mannfjölda á Austurlandi undanfarin ár. Fólksfækkun var talsverð á síðustu árum 20. aldarinnar en með tilkomu virkjana- og stóriðjuframkvæmda hefur þróunin á Austurlandi snúist við og undanfarin ár hefur íbúum hvergi fjölgað meira en á Austurlandi. Á þessu ári fjölgaði íbúum þar um hvorki meira né minna en 12%.

Sem fyrr segir má öðru fremur rekja mikla fólksfjölgun á árinu til mikils aðstreymis útlendinga. Á öllum landsvæðum hefur hlutfall erlendra ríkisborgara af heildarmannfjölda hækkað. Mynd 4 sýnir að hlutfallslega flestir útlendingar eru nú búsettir á Austurlandi, rúmlega fjórðungur íbúa þar er með erlent ríkisfang. Mikil fólksfjölgun á Austurlandi verður raunar eingöngu rakin til mikil aðstreymis útlendinga en íslenskum ríkisborgurum fækkaði lítilsháttar á Austurlandi á árinu sem er að líða (um ellefu einstaklinga). Á öðrum landsvæðum er hlutfall útlendinga af heildarmannfjölda nálægt landsmeðaltalinu, hæst á Suðurnesjum (7,3%) og á Vestfjörðum (7%) samanborið við 6% á landsvísu.  Hlutfall útlendinga hefur reyndar um allangt skeið verið hærra á Vestfjörðum en annars staðar á landinu. Árið 1996 voru 3,7% íbúa Vestfjarða útlendingar samanborið við 1,8% á landinu í heild og árið 2001 var hlutfallið 5,9% á Vestfjörðum og 3,4% á landinu í heild. Hlutfallslega fæstir útlendingar búa á Norðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur.    

Talnaefni - Sveitarfélög
Talnaefni - Byggðakjarnar, póstnúmer og hverfi
Talnaefni - Ríkisfang og fæðingarland