FRÉTT MANNFJÖLDI 19. JANÚAR 2009

Hagstofa Íslands hefur tekið saman upplýsingar um mannfjölda eftir trúfélögum og sóknum miðað við 1. desember 2008. Í þjóðskrá er skráð aðild að Þjóðkirkjunni og hverju trúfélagi sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur viðurkennt til skráningar. Ríkissjóður skilar sóknargjaldi til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskólasjóðs ár hvert fyrir hvern einstakling sem náð hefur 16 ára aldri. Athuga skal að nýfædd börn teljast til trúfélags móður.

Hlutfall sóknarbarna í þjóðkirkju komið niður fyrir 80%
Hinn 1. desember síðastliðinn voru sóknarbörn í Þjóðkirkjunni 16 ára og eldri 195.576 talsins en það er fjölgun um 1.032 frá fyrra ári. Hlutfallslega hefur aftur á móti orðið þar fækkun úr 80,1% í 78,6% af öllum 16 ára og eldri. Þetta er í fyrsta sinn sem þetta hlutfall fer niður fyrir 80%. Það má að nokkru leyti skýra með miklum aðflutningi erlendra ríkisborgara á árinu 2008 en þeir flokkast við komuna til landsins með óskráðum trúfélögum nema þeir skrái sig sérstaklega í trúfélög. Í óskráðum og ótilgreindum trúfélögum teljast nú 19.323 miðað við 16.713 í fyrra. Það er aukning um rúmlega 2.600 einstaklinga eða tæplega 0,8% af heildarmannfjölda.

Meðlimir helstu trúfélaga 16 ára og eldri 1. desember 2008
     Fjöldi Hlutfallsleg skipting
Alls 248.783 100,0
Þjóðkirkjan 195.576 78,6
Fríkirkjur 11.939 4,8
Fríkirkjan í Reykjavík 6.008 2,4
Fríkirkjan í Hafnarfirði 3.735 1,5
Óháði söfnuðurinn 2.196 0,9
Trúfélög utan Þjóðkirkju og fríkirkjusafnaða 14.176 5,7
Kaþólska kirkjan 6.650 2,7
Hvítasunnukirkjan á Íslandi 1.625 0,7
Ásatrúarfélag 1.168 0,5
Önnur skráð trúfélög 4.733 1,9
Önnur trúfélög og ótilgreint 19.323 7,8
Utan trúfélaga 7.769 3,1

4,7% tilheyra fríkirkjusöfnuðum en 5,9% öðrum trúfélögum
Hinn 1. desember síðastliðinn tilheyrðu 4,7% þjóðarinnar 16 ára og eldri einum af fríkirkjusöfnuðunum þremur: Fríkirkjunni í Reykjavík (6.008), Fríkirkjunni í Hafnarfirði (3.735) og Óháða söfnuðinum (2.196). Meðlimum í Fríkirkjusöfnuðum fjölgaði lítils háttar milli ára eða um 464 einstaklinga.

Í dag tilheyra 5,9% íbúa landsins trúfélögum í skráðum trúfélögum utan Þjóðkirkju og fríkirkjusafnaða. Flest þessara trúfélaga eru smá og einungis þrjú telja fleiri en 1.000 meðlimi. Kaþólska kirkjan er fjölmennust þeirra. Meðlimir hennar 16 ára og eldri voru 6.650 árið 2008 samanborið við 5.678 1. desember 2007. Hvítasunnukirkjan er næst stærst. Þar eru meðlimir nú 1.625 samanborið við 1.559 frá fyrra ári. Ásatrúarfélagið er þriðja stærsta trúfélagið en meðlimir þeirra 16 ára og eldri eru nú 1.168 samanborið við 1.059 ári áður.

Utan trúfélaga höfðu 7.769 kosið að standa 1. desember 2008 samanborið við 7.310 ári fyrr.

Skráðum trúfélögum fjölgar um 15 frá 1990
Skráðum trúfélögum hefur fjölgað talsvert á undanförnum árum; skráð trúfélög utan Þjóðkirkju og fríkirkjusafnaða eru nú 25 en voru 10 árið 1990. Eitt nýtt trúfélag varð til árið 2008 en það heitir Soka Gakkai International á Íslandi (SGI á Íslandi) og var viðurkennt sem skráð trúfélag af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hinn 14. apríl síðastliðinn.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.