FRÉTT MANNFJÖLDI 09. MARS 2007

Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað mikið hér á landi undanfarin ár. Um síðustu áramót voru erlendir ríkisborgarar 18.563 talsins samanborið við 13.778 ári áður. Hlutfall útlendinga af íbúum í heild er nú 6,0% en var 4,6% hinn 31. desember 2005. Í þessu sambandi er þó rétt að hafa í huga að nokkur óvissa er um skráningu útlendinga í flutningum til og frá landinu. Þannig getur dregist að útlendingar sem fá dvalarleyfi séu skráðir hjá þjóðskrá og að sama skapi geta liðið nokkrir mánuðir þar til einstaklingar sem flytjast af landi brott eru felldir úr íbúaskrá.

Undanfarin áratug hefur hlutfall íbúa með erlent ríkisfang meira en þrefaldast en árið 1996 nam hlutfall erlendra ríkisborgara af heildarmannfjölda 1,8%. Hlutfall erlendra ríkisborgara af heildarmannfjölda er nú ívíð hærra en í nágrannalöndunum. Í þessu sambandi er þó rétt að hafa í huga að önnur Norðurlönd eiga sér lengri sögu um mikinn fjölda innflytjenda en Íslendingar og því líklegt að hlutfall innflytjenda sem öðlast hefur ríkisfang í nýja landinu sé hærra þar en hér.

Eins og verið hefur allmörg undanfarin ár eru Pólverjar fjölmennastir útlendinga hér á landi, 5.996. Litháar voru 998, Þjóðverjar 945 og Danir 936.

Í nýlegu Hagtíðindahefti um búferlaflutninga var bent á að nokkur breyting hefði orðið á hlut kynjanna meðal erlendra ríkisborgara sem fluttu hingað til lands. Allt til ársins 2003 voru konur fleiri en karlar í flutningum til landsins en eftir það hafa karlar verið umtalsvert fleiri (sjá Hagtíðindi. Mannfjöldi 2007:1). Þessi breyting sést glöggt á mynd 2 sem sýnir hlutfall erlendra karla og kvenna af heildarfjölda hvers kyns um sig árin 2001-2006. Í árslok 2006 voru 7,4% allra karla erlendir ríkisborgarar en einungis 4,7% kvenna. Árið 2001 var hlutfall erlendra kvenna 3.7% en karla 3,1%.


Breyting á hlutfalli kynjanna birtist líka í breytingu á aldurssamsetningu meðal erlendra ríkisborgara. Mynd 3 sýnir að árið 2001 voru erlendar konur á aldrinum 19-25 ára áberandi fleiri en erlendir karlar á sama aldri. Í öðrum aldurshópum var hlutfall kynjanna álíka hátt. Árið 2006 var lítill sem enginn munur á hlutfalli karla og kvenna undir 25 ára aldri (mynd 4). Aftur á móti voru erlendir karlar á aldrinum 30-60 ára umtalsvert fleiri en konur. Fjölmennastir voru aldurshóparnir í kringum þrítugt og meðal 32 ára karla eru 17,0% erlendir ríkisborgarar.

Bæði árin vekur athygli að hlutfall barna meðal erlendra ríkisborgara er lágt. Þá er einnig athygli vert að þrátt fyrir mikla fjölgun erlendra ríkisborgara hefur börnum þeirra fjölgað fremur lítið. Einungis allra yngstu börnunum hefur fjölgað hlutfallslega. Um það bil 3% barna á aldrinum 0-4 ára eru þannig erlendir ríkisborgarar samanborið við 2% fimm árum áður. Í aldurshópnum 5-9 ára eru börn aftur móti lítið fleiri en fyrir fimm árum, þau eru nú rétt rúmlega 2% allra barna en voru þá tæplega 2%.

Á öllum landsvæðum hefur hlutfall erlendra ríkisborgara af heildarmannfjölda hækkað. Mynd 5 sýnir að hlutfallslega flestir útlendingar eru nú búsettir á Austurlandi, rúmlega fjórðungur íbúa þar er með erlent ríkisfang. Mikil fólksfjölgun á Austurlandi verður raunar nær eingöngu rakin til mikil aðstreymis útlendinga. Á öðrum landsvæðum er hlutfall útlendinga af heildarmannfjölda nálægt landsmeðaltalinu, hæst á Suðurnesjum (7,4%) og á Vestfjörðum (7%) samanborið við 6% á landsvísu. Hlutfall útlendinga hefur reyndar um allangt skeið verið hærra á Vestfjörðum en annars staðar á landinu. Árið 1996 voru 3,7% íbúa Vestfjarða útlendingar samanborið við 1,8% á landinu í heild og árið 2001 var hlutfallið 5,9% á Vestfjörðum og 3,4% á landinu í heild. Hlutfallslega fæstir útlendingar búa á Norðurlandi (2,9%) og á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur (3,7%).    



Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.