Í lok 2. ársfjórðungs 2011 bjuggu 319.180 manns á Íslandi, 160.240 karlar og 158.940 konur. Erlendir ríkisborgarar voru 21.150 og á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 203.050 manns.
Á 2. ársfjórðungi fæddust 1.130 börn, en 470 einstaklingar létust. Á sama tíma fluttust 530 einstaklingar frá landinu umfram aðflutta. Brottfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 360 umfram aðflutta, en brottfluttir erlendir ríkisborgarar voru 180 fleiri en þeir sem fluttust til landsins. Fleiri karlar en konur fluttust frá landinu.
Noregur var helsti áfangastaður brottfluttra íslenskra ríkisborgara en þangað fluttust 380 manns á 2. ársfjórðungi. Til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar fluttust 680 íslenskir ríkisborgarar af 980 alls. Af þeim 800 erlendu ríkisborgurum sem fluttust frá landinu fóru flestir til Póllands, 280 manns.
Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar voru frá Danmörku (270), Noregi (120) og Svíþjóð (80), samtals 470 manns af 620. Pólland var upprunaland flestra erlendra ríkisborgara en þaðan fluttust 170 af alls 620 erlendum innflytjendum. Litháen kom næst en þaðan fluttust 40 erlendir ríkisborgarar til landsins.
Mannfjöldi, fæðingar, andlát og búferlaflutningar á 2. ársfjórðungi 2011 | |||
Alls | Karlar | Konur | |
Mannfjöldinn í lok ársfjórðungs | 319.180 | 160.240 | 158.940 |
Mannfjöldinn í upphafi ársfjórðungs | 319.080 | 160.260 | 158.810 |
Breyting | 110 | -20 | 130 |
Fæddir | 1.130 | 580 | 550 |
Dánir | 470 | 250 | 220 |
Aðfluttir umfram brottflutta | -530 | -340 | -190 |
Aðfluttir | 1.240 | 660 | 580 |
Brottfluttir | 1.780 | 1.010 | 770 |
Tölur eru námundaðar að næsta tug. |
Útgáfu miðársmannfjöldatalna hætt
Hagstofan hefur ákveðið að hætta útgáfu á mannfjöldatölum 1. júlí, svokölluðum miðársmannfjöldatölum, sem hafa komið í stað meðalmannfjöldatalna frá árinu 1997. Þessar tölur hefur Hagstofan gefið út í þeim tilgangi að reikna út hvers kyns tíðnitölur. Frá árinu 2011 mun Hagstofan þess í stað nota einfalt meðaltal af mannfjöldatölum 1. janúar hvers árs og 1. janúar þess næsta vegna tíðniútreikninga. Meðalmannfjöldatölur fyrir árið 2011 verða því til reiðu þegar mannfjöldatölur 1. janúar 2012 liggja fyrir í febrúar á næsta ári.
Talnaefni