Innflytjendur á Íslandi voru 69.691 eða 18,2% mannfjöldans þann 1. janúar 2024. Innflytjendum hefur haldið áfram að fjölga en þeir voru 16,7% landsmanna (62.821) í fyrra. Frá árinu 2012 hefur hlutfallið farið úr 7,4% mannfjöldans upp í 18,2%. Innflytjendum af annarri kynslóð fjölgaði einnig á milli ára, voru 6.855 í byrjun árs 2023 en 7.351 á þessu ári. Samanlagt var fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda 20,1% af mannfjöldanum og hafði það hlutfall aldrei verið hærra. Einstaklingum með erlendan bakgrunn, öðrum en innflytjendum, fjölgaði einnig lítillega á milli ára og voru 7,3% mannfjöldans.
Innflytjandi er einstaklingur sem er fæddur erlendis og á foreldra, afa og ömmur sem öll eru fædd erlendis. Innflytjendur af annarri kynslóð eru einstaklingar sem fæddir eru á Íslandi og eiga foreldra sem báðir eru innflytjendur. Fólk er talið hafa erlendan bakgrunn ef annað foreldrið er erlent. Einstaklingur sem fæddist erlendis en á foreldra sem báðir eru fæddir hér á landi telst einnig hafa erlendan bakgrunn.
Pólverjar fjölmennastir
Eins og síðustu ár reyndust Pólverjar langfjölmennasti hópur innflytjenda hér á landi. Innflytjendur frá Póllandi voru þannig 22.394 eða 32,1% allra innflytjenda þann 1. janúar síðastliðinn. Þar á eftir komu einstaklingar frá Úkraínu (5,3%) og Litháen (5,1%). Pólskir karlar voru 33,8% allra karlkyns innflytjenda eða 12.737 af 37.691. Litháískir karlar voru næst fjölmennastir (5,9%) og síðan komu karlar með uppruna frá Rúmeníu (5,5%). Pólskar konur voru 30,2% kvenkyns innflytjenda, næst á eftir þeim komu konur frá Úkraínu (6,6%) og þá konur frá Filippseyjum (5,1%).
31,5% íbúa Suðurnesja innflytjendur
Þann 1. janúar síðastliðinn bjuggu 49.433 fyrstu og annarrar kynslóðar innflytjendur á höfuðborgarsvæðinu eða 64,2% allra innflytjenda á landinu. Hlutfall innflytjenda af mannfjölda var mest á Suðurnesjum en þar voru 31,5% innflytjendur af fyrstu eða annarri kynslóð. Næsthæst var hlutfallið á Vestfjörðum þar sem 23,8% mannfjöldans voru innflytjendur og börn þeirra. Lægst var hlutfallið á Norðurlandi vestra en þar voru 10,6% mannfjöldans innflytjendur og börn þeirra.
649 einstaklingar fengu íslenskt ríkisfang árið 2023
Árið 2023 fengu 649 einstaklingar íslenskan ríkisborgararétt sem var svipaður fjöldi og á fyrra ári þegar 706 einstaklingar fengu íslenskt ríkisfang. Af þeim 649 einstaklingum sem fengu íslenskt ríkisfang höfðu langflestir áður verið með pólskt ríkisfang eða 156 og næstflestir verið með ríkisfang frá Thailandi (40). Árið 1991 fengu fleiri karlar en konur íslenskt ríkisfang en á hverju ári eftir það hafa konur verið í meirihluta þeirra sem fengið hafa íslenskan ríkisborgararétt. Það átti einnig við árið 2023 þegar 344 konur fengu íslenskan ríkisborgararétt en 305 karlar.