FRÉTT MANNFJÖLDI 22. JÚLÍ 2020

Hinn 1. janúar 2020 bjuggu 5,9% landsmanna í strjálbýli samkvæmt endurskoðuðum gögnum Hagstofu Íslands um þéttbýlisstaði og byggðakjarna, en með strjálbýli er átt við sveit eða byggðakjarna með færri en 200 íbúa. Fleiri karlar en konur bjuggu í strjálbýli í byrjun árs 2020 þótt munurinn sé ekki mikill. Þannig bjuggu 11.748 karlar í strjálbýli (6,3% af öllum körlum) en 9.885 konur (5,6% af öllum konum).

Þéttbýlisstaðir með 200 eða fleiri íbúa voru 63 hinn 1. janúar 2020. Langstærsti þéttbýlisstaðurinn var Stór-Reykjavík með 228.418 íbúa en þar er samfelld byggð frá Hafnarfirði norður í Mosfellsbæ. Næst stærsta þéttbýlið var í Keflavík og Njarðvík, þar sem bjuggu 19.311 íbúar, en á Akureyri og nágrenni bjuggu 18.893 íbúar hinn 1. janúar 2020.

Ný skilgreining á byggðakjörnum og þéttbýlisstöðum
Árið 2015 tók gildi ný skilgreining á byggðakjörnum og þéttbýlisstöðum (sjá, Endurskilgreining Hagstofu Íslands á þéttbýlisstöðum og byggðakjörnum). Hagstofan hefur nú útfært þessa skilgreiningu landfræðilega. Jafnframt hafa verið leiðréttar rangfærslur í fyrri gögnum.

Til þess að þurfa ekki að draga ný mörk á hverju ári eru mörk byggðakjarna og þéttbýlisstaða ákvörðuð á fimm ára fresti (á ári sem endar á 0 eða 5) í samræmi við skilgreininguna. Ef ný hverfi eru tekin í notkun á tímabilinu þá er mörkum þess byggðakjarna/þéttbýlisstaðar breytt ef þau hafa umtalsverðar breytingar í för með sér. Birtar eru upplýsingar um byggðakjarna/þéttbýlisstað sem ná 50 íbúa lágmarksfjölda við ákvörðun marka það ár og a.m.k. 9 næstu ár. Landfræðileg nálgun hefur þann kost í för með sér að auðveldara er að ákvarða hvort tiltekið heimilisfang tilheyri byggðakjarna. Það dregur úr líkum á flokkunarvillum.

Að þessu sinni er birt talnaefni með samfelldri tímaröð frá 1. janúar 2001, en dregin voru mörk byggðakjarna og þéttbýlisstaða allt frá árinu 1990. Nánar er gerð grein fyrir afmörkun byggðakjarnanna og þéttbýlisstaðanna í sérstakri greinargerð hér að neðan. Fitjuskrár sem gerðar hafa verið vegna nýrrar framkvæmdar á byggðakjarna- og þéttbýlisskilgreiningunni eru fáanlegar án endurgjalds ef þess er óskað.

Fjöldi þéttbýlisstaða og skipting eftir kyni, 1. janúar 2020
Fjöldi
þéttbýlisstaða
Mannfjöldi Hlutfallsleg
skipting
Karlar Konur
Allt landið 95 364.134 100,0% 186.941 177.193
Staðir með 200 íbúa og fleiri 63 342.501 94,1% 175.193 167.308
Íbúar 100.000 og fleiri 1 228.418 62,7% 116.153 112.265
Íbúar 10.000–99.999 2 38.204 10,5% 19.754 18.450
Íbúar 5.000–9.999 2 16.276 4,5% 8.326 7.950
Íbúar 2.000–4.999 9 25.523 7,0% 13.163 12.360
Íbúar 1.000–1.999 12 16.928 4,6% 8.915 8.013
Íbúar 500–999 14 10.096 2,8% 5.210 4.886
Íbúar 300–499 10 3.865 1,1% 2.024 1.841
Íbúar 200–299 13 3.191 0,9% 1.648 1.543
Strjálbýli 32 21.633 5,9% 11.748 9.885
Íbúar 100–199 22 2.951 0,8% 1.561 1.390
Íbúar 50–99 10 705 0,2% 371 334
Annað strjálbýli .. 17.977 4,9% 9.816 8.161

Hugtök
Byggðakjarni er samfelld húsaþyrping innan eins sveitarfélags þar sem minna en 200 metrar eru á milli húsa enda hefur þyrpingin sérstakt heiti. Lágmarksfjöldi íbúa í hverjum byggðakjarna er 50 manns.

Þéttbýlisstaðir eru skilgreindir með sama hætti og byggðakjarnar nema að því leyti að þeir ná yfir sveitarfélagsmörk. Þéttbýlisstaðir hafa að lágmarki 200 íbúa.

Fitja er skilgreind sem staðtengdur hlutur sem skráður er á kort eða í landfræðilegu gagnasafni.

Ný aðferð við flokkun íbúa eftir þéttbýli og byggðakjörnum - Greinargerð

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1030 , netfang mannfjoldi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.