FRÉTT MANNFJÖLDI 20. MARS 2020

Hinn 1. janúar 2020 voru landsmenn 364.134 og hafði þá fjölgað um 7.143 frá sama tíma árið áður eða um 2,0%. Konum (177.193) fjölgaði um 1,7% og körlum (186.941) fjölgaði um 2,2%.

Talsverð fólksfjölgun var á höfuðborgarsvæðinu en íbúum þar fjölgaði um 4.803 í fyrra eða um 2,1%. Hlutfallslega var þó mest fólksfjölgun á Suðurlandi, 3,9%, og Suðurnesjum, 2,6%. Einnig fjölgaði íbúum á Norðurlandi vestra (1,3%), en minna á Vesturlandi (0,9%), Austurlandi (0,9%), Vestfjörðum (0,7%) og Norðurlandi eystra (0,5%).

Tíu sveitarfélög með yfir 5 þúsund íbúa
Alls voru 72 sveitarfélög á landinu 1. janúar 2020 en stærð þeirra er mjög misjöfn. Alls var íbúatala sjö sveitarfélaga undir 100 en undir 1.000 í 39 sveitarfélögum. Einungis tíu sveitarfélög höfðu yfir 5.000 íbúa en 33 yfir 1.000 íbúa.

Kjarnafjölskyldum fjölgaði á milli ára
Kjarnafjölskyldur voru 84.668 hinn 1. janúar síðastliðinn en 83.358 ári áður. Sjá má skiptingu kjarnafjölskyldna eftir fjölskyldugerð á meðfylgjandi mynd.

Framfærsluhlutfall lækkaði lítillega
Framfærsluhlutfall var 64,6% í ársbyrjun en 64,9% í fyrra. Framfærsluhlutfall er hlutfall ungs fólks (19 ára og yngra) og eldra fólks (65 ára og eldra) af fólki á vinnualdri (20–64 ára). Lækkun þessa hlutfalls stafar einkum af því að fólki á vinnualdri fjölgar hlutfallslega.

Aðferðir
Til kjarnafjölskyldu teljast hjón og fólk í óvígðri sambúð, börn hjá þeim 17 ára og yngri, einhleypir karlar og konur sem búa með börnum 17 ára og yngri.

Hagstofan metur mannfjöldann 1. janúar ár hvert á grundvelli upplýsinga um breytingar á lögheimili í íbúaskrá Þjóðskrár.

Talnaefni
Yfirlit mannfjölda
Mannfjöldi eftir sveitarfélögum
Fjölskyldan

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1030 , netfang mannfjoldi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.