FRÉTT MANNFJÖLDI 22. MARS 2021

Mannfjöldi 1. janúar 2021 var 368.792. Íbúum fjölgaði um 4.658 frá 1. janúar 2020 eða um 1,3%. Alls voru 189.043 karlar og 179.749 konur búsettar á Íslandi í upphafi ársins og hafði körlum fjölgað um 1,1% árið 2020 en konum um 1,4%.

Hlutfallsleg fólksfjölgun mest á Suðurlandi
Hinn 1. desember 2020 breyttust mörk landshlutanna Austurlands og Suðurlands í landsvæðaskiptingu Hagstofu Íslands þannig að framvegis mun Sveitarfélagið Hornafjörður tilheyra Suðurlandi en ekki Austurlandi eins og áður.

Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 3.494 fleiri 1. janúar 2021 en fyrir ári. Það jafngildir 1,5% fjölgun íbúa á einu ári. Hlutfallsleg fólksfjölgun var mest á Suðurlandi þar sem fjölgaði um 1,8%, eða 555 á síðasta ári. Fólki fjölgaði á Suðurnesjum um 366 einstaklinga (1,3%), og um 78 (1,1%) á Norðurlandi vestra. Minni hlutfallsleg fólksfjölgun var á Austurlandi (1,0%), Vesturlandi (0,3%) og Norðurlandi eystra (0,04%). Hins vegar fækkaði á Vestfjörðum um 0,1% en hafa verður í huga að árið 2019 fjölgaði þar um 0,7%.

Íbúum fækkaði í 27 af 69 sveitarfélögum
Sveitarfélög á Íslandi voru alls 69 1. janúar 2021 en það er fækkun um þrjú vegna sameiningar Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupsstaðar undir nafninu Múlaþing 17. febrúar 2020. Reykjavík var fjölmennasta sveitarfélagið með 133.262 íbúa en Árneshreppur á Ströndum fámennast með 42 íbúa. Alls höfðu 36 sveitarfélög færri en 1.000 íbúa en í aðeins ellefu sveitarfélögum voru 5.000 íbúar eða fleiri.

Árið 2020 fækkaði íbúum í 27 af 69 sveitarfélögum landsins og var fækkunin hlutfallslega mest í Reykhólahreppi (9,9%). Af ellefu stærstu sveitarfélögunum með 5.000 íbúa eða fleiri fjölgaði hlutfallslega mest í Garðabæ (4,5%), Mosfellsbæ (4,2%) og Sveitarfélaginu Árborg (3,9%). Fjölgun var einnig yfir landsmeðaltali í Akraneskaupsstað (2,2%), Múlaþingi (2,0%) og Reykjavíkurborg (1,6%) en fjölgun var undir landsmeðaltali í Akureyrarbæ (1,0%), Kópavogsbæ (1,0%) og Fjarðabyggð (0,1%). Af 11 stærstu sveitarfélögunum fækkaði einungis í Hafnarfjarðarkaupsstað (-0,9%).

63% mannfjöldans á Stór-Reykjavíkursvæðinu
Um 63% mannfjöldans bjó á Stór-Reykjavíkursvæðinu 1. janúar 2021, þ.e. samfelldri byggð frá Hafnarfirði til Mosfellsbæjar, alls 232.280. Næst stærsta þéttbýlið var í Keflavík og Njarðvík, þar sem bjuggu 19.562 íbúar en á Akureyri og nágrenni bjuggu 19.069 íbúar þann 1. janúar 2021. Í strjálbýli bjuggu 21.355 einstaklingar, 5,8% mannfjöldans, en með strjálbýli er átt við sveit eða byggðakjarna með færri en 200 íbúa.

Talnaefni
Yfirlit mannfjölda
Mannfjöldi eftir sveitarfélögum

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1030 , netfang mannfjoldi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.