FRÉTT MANNFJÖLDI 21. MARS 2024

Samkvæmt nýju mati Hagstofu Íslands var mannfjöldi á Íslandi 383.726 þann 1. janúar 2024 og hafði íbúum fjölgað um 8.508 frá 1. janúar 2023, eða um 2,3%. Alls voru 196.552 karlar, 187.015 konur og 159 kynsegin/annað búsett á landinu í upphafi ársins og fjölgaði körlum um 2,5% frá fyrra ári, konum um 2,0% og kynsegin/annað um 22,3%.

Hlutfall aldraðra aldrei verið hærra
Á undanförnum áratugum hefur aldurssamsetning landsmanna breyst töluvert. Almennt má segja að börnum hafi fækkað hlutfallslega en eldra fólki fjölgað. Framfærsluhlutfall er annars vegar reiknað sem hlutfall aldraðra (65+) af fólki á vinnualdri 20–64 ára og hins vegar sem hlutfall barna og ungmenna (0–19 ára) af sama hópi. Á síðastliðnum tíu árum hefur fólki á aldrinum 0–19 ára fækkað úr 47,1% í 41,2% af fólki á vinnualdri en hlutfall aldraðra (65+) fjölgað úr 22,7% í 26,0% og hefur aldrei verið hærra.

Hlutfallsleg fólksfjölgun mest á Suðurnesjum og Suðurlandi
Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 4.888 fleiri þann 1. janúar 2024 en fyrir ári. Það jafngildir 2,0% fjölgun íbúa á einu ári. Hlutfallsleg fólksfjölgun var mest á Suðurnesjum og Suðurlandi þar sem fjölgaði um 4,1% á síðasta ári. Í öðrum landshlutum var fólksfjölgun undir landsmeðaltali, á Vesturlandi fjölgaði um 2,0%, á Vestfjörðum fjölgaði um 1,0%, á Norðurlandi eystra um 1,3% og á Austurlandi um 1,9%. Minnst fjölgun var á Norðurlandi vestra en þar fjölgaði einungis um 47 einstaklinga eða 0,6%.

Íbúum fækkaði í 15 af 64 sveitarfélögum
Reykjavík var fjölmennasta sveitarfélagið með 136.894 íbúa en Tjörneshreppur og Skorradalshreppur voru fámennustu sveitarfélögin með 52 íbúa hvort. Alls höfðu 29 sveitarfélög færri en 1.000 íbúa, þar af fimm með færri en 100 íbúa. Í ellefu sveitarfélögum voru 5.000 íbúar eða fleiri.

Í fyrra fækkaði íbúum í 15 af 64 sveitarfélögum landsins. Af ellefu stærstu sveitarfélögunum, með 5.000 íbúa eða fleiri, fjölgaði hlutfallslega mest í Reykjanesbæ eða um 4,6% og í Sveitarfélaginu Árborg um 4,6%. Í Reykjavíkurborg var fjölgunin undir landsmeðaltali eða 1,9%. Af 11 stærstu sveitarfélögunum fjölgaði minnst í Akureyrarbæ eða um 1,3% og næstminnst í Kópavogsbæ um 1,5%.

63% mannfjöldans býr á Stór-Reykjavíkursvæðinu
Um 63% mannfjöldans bjó á Stór-Reykjavíkursvæðinu 1. janúar 2024, þ.e. samfelldri byggð frá Hafnarfirði til Mosfellsbæjar, alls 239.733. Næst stærsta þéttbýlið var í Keflavík og Njarðvík, þar sem bjuggu 21.847 íbúar og á Akureyri og nágrenni, eða 19.847 íbúar. Alls bjuggu 22.385 einstaklingar í strjálbýli, eða 5,8% mannfjöldans, en með strjálbýli er átt við sveit eða byggðakjarna með færri en 200 íbúa.

Pólverjar fjölmennastir erlendra ríkisborgara
Á síðastliðnum 10 árum hefur fjöldi erlendra ríkisborgara á Íslandi þrefaldast. Þann 1. janúar 2024 voru 63.528 erlendir ríkisborgarar búsettir í landinu. Hlutfall erlendra ríkisborgara af heildarmannfjölda var 16,6% samanborið við 6,6% árið 2014.

Eins og síðustu ár voru Pólverjar langfjölmennasti hópur erlendra ríkisborgara hér á landi þann 1. janúar 2024. Alls voru 22.693 einstaklingar með pólskt ríkisfang eða 35,7% allra erlendra ríkisborgara. Pólskir karlar voru 36,7% allra karla með erlendan ríkisborgarétt þann 1. janúar 2024, eða 13.187 af 35.929. Pólskar konur voru 34,5% af erlendum kvenkyns ríkisborgurum. Næstfjölmennasti hópur erlendra ríkisborgara var frá Litháen, 7,2% en 5,6% erlendra ríkisborgara koma frá Úkraínu.

Karlar fjölmennari á meðal erlendra ríkisborgara
Þann 1. janúar 2024 voru karlar 8.348 fleiri en konur á meðal erlendra ríkisborgara. Kynjahlutfallið er hins vegar misjafnt eftir ríkisfangi. Þannig voru 1.388 karlar á hverjar 1.000 konur á meðal erlendra ríkisborgara frá Póllandi og 1.803 frá Litháen. Á meðal erlendra ríkisborgara frá Úkraínu voru aftur á móti 748 karlar á hverjar 1.000 konur hinn 1. janúar 2024.

Erlendir ríkisborgarar voru hlutfallslega flestir á Suðurnesjum
Hlutfallslega flestir erlendir ríkisborgarar búa á Suðurnesjum, eða 26,8% af heildarmannfjölda landsvæðisins. Einungis 9,7% íbúa á Norðurlandi vestra hafa á hinn bóginn erlent ríkisfang og 9,9% íbúa Norðurlands eystra. Í einstökum sveitarfélögum var hlutfall erlendra ríkisborgar hæst í Mýrdalshreppi, eða 58,0% íbúa og er það jafnframt eina sveitarfélagið þar sem erlendir ríkisborgarar eru í meirihluta íbúa. Þar á eftir kemur Skaftárhreppur, en þar eru 37,3% íbúa með erlent ríkisfang. Það sveitarfélag sem er með lægst hlutfall erlendra ríkisborgara er Skagabyggð, en einungis 3,5% íbúa sveitarfélagsins eru með erlent ríkisfang.

Ný aðferð við mat á íbúafjölda á Íslandi
Hagstofa Íslands hefur endurbætt aðferð sína við útreikninga á mannfjölda. Hingað til hefur íbúafjöldi eingöngu byggt á skráningu lögheimilis í þjóðskrá. Ný aðferð byggir á breiðari grunni opinberra gagna; skattagögnum og nemendagögnum auk þjóðskrár. Niðurstaðan er sú að 1. janúar 2024 hafi íbúar verið um 15.245 færri en eldri aðferð gaf til kynna.

Ný aðferð við mat á íbúafjölda á Íslandi - Greinargerð

Talnaefni
Yfirlit
Sveitarfélög og byggðakjarnar
Ríksifang og fæðingarland

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1030 , netfang mannfjoldi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.