Mannfjöldi á Íslandi var 389.444 þann 1. janúar 2025 samkvæmt nýju mati Hagstofu Íslands og hafði íbúum fjölgað um 5.718 frá 1. janúar 2024 eða um 1,5%. Alls voru 199.622 karlar, 189.623 konur og 199 kynsegin/annað búsett á landinu í upphafi ársins og fjölgaði körlum um 1,6% frá fyrra ári, konum um 1,4% og kynsegin/öðru um 25,2%.
Hlutfall aldraðra aldrei verið hærra
Á undanförnum áratugum hefur aldurssamsetning landsmanna breyst töluvert. Almennt má segja að börnum hafi fækkað hlutfallslega en eldra fólki fjölgað. Framfærsluhlutfall er annars vegar reiknað sem hlutfall aldraðra (65+) af fólki á vinnualdri 20–64 ára og hins vegar sem hlutfall barna og ungmenna (0–19 ára) af sama hópi. Á síðastliðnum tíu árum hefur hlutfall fólks á aldrinum 0–19 ára lækkað úr 46,6% í 40,7% af fólki á vinnualdri en hlutfall aldraðra (65+) aukist úr 23,3% í 26,5% og hefur aldrei verið hærra.
Hlutfallsleg fólksfjölgun mest á Suðurlandi
Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 4.877 fleiri þann 1. janúar 2025 en fyrir ári. Það jafngildir 2,0% fjölgun íbúa á einu ári. Hlutfallsleg fólksfjölgun var mest á Suðurlandi þar sem fjölgaði um 3,5% á síðasta ári og á Vesturlandi en þar var fjölgunin 2,0% milli ára. Í öðrum landshlutum var fólksfjölgun undir landsmeðaltali. Á Norðurlandi eystra fjölgaði um 1,4%, á Austurlandi fjölgaði um 1,2%, á Norðurlandi vestra um 0,8% og á Vestfjörðum um 0,1%. Hins vegar fækkaði íbúum á Suðurnesjum um 4,4% og skýrist sú fækkun aðallega af flutningum frá Grindavík á árinu 2024.
Íbúum fækkaði í 9 af 62 sveitarfélögum
Sveitarfélög á Íslandi voru alls 62 þann 1. janúar 2025 og hafði þeim fækkað um tvö frá fyrra ári. Reykjavík var fjölmennasta sveitarfélagið með 138.772 íbúa en Tjörneshreppur fámennasta sveitarfélagið með 53. Alls höfðu 27 sveitarfélög færri en 1.000 íbúa, þar af fjögur með færri en 100 íbúa. Í ellefu sveitarfélögum voru 5.000 íbúar eða fleiri.
Í fyrra fækkaði íbúum í 9 af 62 sveitarfélögum landsins. Mest var fækkunin í Grindavíkurbæ en þar fækkaði um 2.333 íbúa og nam fækkunin 65% milli ára. Af ellefu stærstu sveitarfélögunum, með 5.000 íbúa eða fleiri, fjölgaði hlutfallslega mest í Garðabæ eða um 5,4% og í Sveitarfélaginu Árborg um 4,3%. Í Reykjavíkurborg var fjölgunin undir landsmeðaltali eða 1,4%. Af ellefu stærstu sveitarfélögunum fjölgaði minnst í Múlaþingi eða um 1,1% og næstminnst í Akureyrarbæ um 1,2%.
Talnaefni
Yfirlit
Sveitarfélög
Fjölskyldan