Í lok 1. ársfjórðungs 2010 bjuggu 317.900 manns á Íslandi, 159.900 karlar og 158.800 konur. Landsmönnum hafði þá fjölgað um 400 frá árslokum 2009 þegar þeir voru 317.500. Erlendir ríkisborgarar voru 21.600 í lok 1. ársfjórðungs 2010. Á höfuðborgarsvæðinu einu bjuggu 201.200 manns.
Á fyrsta ársfjórðungi 2010 fæddust 1.200 börn, en 480 einstaklingar létust. Á sama tíma fluttust frá landinu 380 einstaklingar umfram aðkomna. Brottfluttir einstaklingar með íslenskan ríkisborgararétt voru 430 umfram aðkomna, en erlendir ríkisborgarar sem hingað komu voru hins vegar 60 fleiri en þeir sem fluttu burt. Karlar voru í miklum meirihluta brottfluttra.
Mannfjöldi, fæðingar, andlát og búferlaflutningar á 1. ársfjórðungi 2010 | |||
Alls | Karlar | Konur | |
Mannfjöldinn í lok ársfjórðungs | 317.900 | 159.900 | 158.000 |
Fæddir | 1.200 | 590 | 620 |
Dánir | 480 | 270 | 210 |
Aðfluttir umfram brottflutta | -380 | -320 | -60 |
Aðfluttir | 1.100 | 580 | 550 |
Brottfluttir | 1.500 | 900 | 610 |
Skýringar
Hagstofan hefur stofnað til nýrrar tímaraðar með tölum um mannfjöldann í lok hvers ársfjórðungs ásamt ársfjórðungsyfirliti yfir fæðingar, andlát og búferlaflutninga. Miðað er við að beðið sé í 10 virka daga frá lokum ársfjórðungs eftir tilkynningum um fæðingar, andlát eða búferlaflutninga sem varða ársfjórðunginn. Tilkynningar sem skráðar eru síðar verða taldar með næsta ársfjórðungi á eftir. Hér er um að ræða aðra uppgjörsaðferð en þá sem notuð er í árstölum Hagstofunnar, en í þeim er jafnan beðið a.m.k. einn mánuð eftir fæðingar- og dánartilkynningum, en flutningar eru gerðir upp eftir skráningarári. Munurinn sést meðal annars þegar tölur í árslok 2009 með þessari uppgjörsaðferð eru bornar saman við áður útgefnar tölur um mannfjöldann 1. janúar 2010.
Eðli máls samkvæmt er hér ekki um endanlegar tölur að ræða. Af þeim sökum eru allar tölur hærri en 1.000 námundaðar að næsta hundraði. Tölur á bilinu 51-1.000 eru námundaðar að næsta tug, lægri tölur að næsta hálfa tug.