FRÉTT MANNFJÖLDI 25. APRÍL 2022

Í lok fyrsta ársfjórðungs 2022 bjuggu 377.280 manns á Íslandi, þar af 193.730 karlar og 183.550 konur og fjölgaði því landsmönnum um 1.280 á ársfjórðungnum. Kynhlutlausir voru 90 en vegna smæðar hópsins er honum dreift af handahófi á milli karla og kvenna. Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 241.560 manns en 135.720 á landsbyggðinni.

Fjöldi fæddra barna á fyrsta ársfjórðungi 2022 var 1.110 en 760 einstaklingar létust. Fleiri hafa ekki látist á einum ársfjórðungi frá því að Hagstofa Íslands byrjaði að birta tölur um andlát eftir ársfjórðungum. Á sama tíma fluttust 920 einstaklingar til landsins umfram brottflutta. Brottfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 430 umfram aðflutta en aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 1.350 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu. Fleiri karlar en konur fluttust frá landinu.

Danmörk var helsti áfangastaður brottfluttra íslenskra ríkisborgara en þangað fluttust 490 manns á fyrsta ársfjórðungi. Til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar fluttust 600 íslenskir ríkisborgarar af samtals 800. Af þeim 1.500 erlendu ríkisborgurum sem fluttust frá landinu fóru flestir til Póllands, 450 manns.

Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar komu frá Danmörku (110), Noregi (50) og Svíþjóð (60), samtals 230 manns af 360. Pólland var upprunaland flestra erlendra ríkisborgara en þaðan fluttust 700 til landsins af alls 2.850 erlendum innflytjendum. Rúmenía kom næst, en þaðan fluttust 250 erlendir ríkisborgarar til landsins. Erlendir ríkisborgarar voru 56.100 eða 14,9% af heildarmannfjöldanum.

Mannfjöldinn er reiknaður eins og hann stendur samkvæmt þjóðskrá.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1030 , netfang mannfjoldi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.