FRÉTT MANNFJÖLDI 15. JÚLÍ 2010

Í lok 2. ársfjórðungs 2010 bjuggu 317.900 manns á Íslandi, 159.800 karlar og 158.100 konur. Engin fjölgun var frá fyrra ársfjórðungi. Erlendir ríkisborgarar voru 21.100 í lok 2. ársfjórðungs 2010. Á höfuðborgarsvæðinu einu bjuggu 201.300 manns.

Á 2. ársfjórðungi 2010 fæddust 1.200 börn, en 530 einstaklingar létust. Á sama tíma fluttust frá landinu 710 einstaklingar umfram aðflutta. Brottfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 160 umfram aðflutta, en brottfluttir erlendir ríkisborgarar voru 550 fleiri en þeir sem fluttust til landsins. Karlar voru í miklum meirihluta brottfluttra.

Noregur var helsti áfangastaður brottfluttra íslenskra ríkisborgara, en þangað fluttust 310 manns í ársfjórðungnum af 710 alls. Flestir erlendir ríkisborgarar fluttust til Póllands eða 520 manns af 1.000.

Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar komu frá Danmörku (210), Noregi (100) og Svíþjóð (90), samtals 400 manns af 550. Erlendir ríkisborgarar voru hins vegar flestir frá Póllandi, 140 af alls 480 erlendum innflytjendum.

Mannfjöldi, fæðingar, andlát og búferlaflutningar á 2. ársfjórðungi 2010
  Alls Karlar Konur
Mannfjöldinn í lok ársfjórðungs 317.900 159.800 158.100
Fæddir 1.200 640 560
Dánir 530 290 250
Aðfluttir umfram brottflutta -710 -490 -220
Aðfluttir 1.000 560 480
Brottfluttir 1.700 1.000 700

Skýringar
Hagstofan hefur stofnað til nýrrar tímaraðar með tölum um mannfjöldann í lok hvers ársfjórðungs ásamt ársfjórðungsyfirliti yfir fæðingar, andlát og búferlaflutninga. Miðað er við að beðið sé í um 10 virka daga frá lokum ársfjórðungs eftir tilkynningum um fæðingar, andlát eða búferlaflutninga sem varða ársfjórðunginn. Tilkynningar sem skráðar eru síðar verða taldar með næsta ársfjórðungi á eftir. Hér er um að ræða aðra uppgjörsaðferð en þá sem notuð er í árstölum og miðárstölum Hagstofunnar, en í þeim er jafnan beðið a.m.k. einn mánuð eftir fæðingar- og dánartilkynningum, en flutningar eru gerðir upp eftir skráningarári.

Athygli er vakin á því að miklar tafir geta orðið á flutningstilkynningum eða þær jafnvel ekki afhentar. Slíkt getur skekkt tölur um búferlaflutninga.

Eðli máls samkvæmt er hér ekki um endanlegar tölur að ræða. Af þeim sökum eru allar tölur hærri en 1.000 námundaðar að næsta hundraði. Tölur á bilinu 51-1.000 eru námundaðar að næsta tug, lægri tölur að næsta hálfa tug.

Endanlegar tölur um miðársmannfjöldann verða gefnar út 17. ágúst n.k.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.