Í lok 2. ársfjórðungs 2022 bjuggu 381.370 manns á Íslandi, 195.990 karlar, 185.290 konur og 100 kynsegin/annað. Landsmönnum fjölgaði því um 4.090 á ársfjórðungnum. Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 243.550 manns en 137.820 á landsbyggðinni.
Á 2. ársfjórðungi 2022 fæddust 1.070 börn, en 640 einstaklingar létust. Á sama tíma fluttust 3.600 einstaklingar til landsins umfram brottflutta. Fleiri hafa ekki flutt til landsins á einum ársfjórðungi frá því að Hagstofa Íslands byrjaði að birta tölur um flutninga eftir ársfjórðungum seinnipart árs 2009. Aðfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 90 umfram brottflutta, en aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 3.510 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu. Fleiri karlar en konur fluttust frá landinu.
Danmörk var helsti áfangastaður brottfluttra íslenskra ríkisborgara en þangað fluttust 130 manns á 2. ársfjórðungi. Til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar fluttust 250 íslenskir ríkisborgarar af 440 alls. Af þeim 1.010 erlendu ríkisborgurum sem fluttust frá landinu fóru flestir til Póllands, 300 manns.
Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar komu frá Danmörku (180), Noregi (90) og Svíþjóð (120), samtals 380 manns af 530. Pólland var upprunaland flestra erlendra ríkisborgara en þaðan fluttust 1.170 til landsins af alls 4.520 erlendum innflytjendum. Úkraína kom næst, en þaðan fluttust 980 erlendir ríkisborgarar til landsins. Erlendir ríkisborgarar voru 59.490 eða 15,6% af heildarmannfjöldanum.
Mannfjöldinn er reiknaður eins og hann stendur samkvæmt þjóðskrá.