Í lok fjórða ársfjórðungs 2021 bjuggu 376.000 manns á Íslandi, þar af 192.900 karlar og 183.110 konur, og fjölgaði landsmönnum um 1.170 á ársfjórðungnum. Kynhlutlausir voru 77 en vegna smæðar hópsins er ekki gerð grein fyrir honum sérstaklega í þessum tölum heldur er honum dreift af handahófi á milli karla og kvenna. Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 240.750 manns en 135.260 á landsbyggðinni.

Fjöldi fæddra barna á fjórða ársfjórðungi 2021 var 1.150 en 610 einstaklingar létust. Á sama tíma fluttust 610 einstaklingar til landsins umfram brottflutta. Brottfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 90 umfram aðflutta en aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 710 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu. Fleiri karlar en konur fluttust frá landinu.

Danmörk var helsti áfangastaður brottfluttra íslenskra ríkisborgara en þangað fluttust 130 manns á fjórða ársfjórðungi. Til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar fluttust 260 íslenskir ríkisborgarar af 460 alls. Af þeim 1.360 erlendu ríkisborgurum sem fluttust frá landinu fóru flestir til Póllands, 510 manns.

Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar komu frá Danmörku (110), Noregi (60) og Svíþjóð (70), samtals 230 manns af 370. Pólland var upprunaland flestra erlendra ríkisborgara en þaðan fluttust 470 til landsins af alls 2.060 erlendum innflytjendum. Rúmenía kom næst en þaðan fluttust 130 erlendir ríkisborgarar til landsins. Erlendir ríkisborgarar voru 54.770 eða 14,6% af heildarmannfjöldanum.

Mannfjöldinn er reiknaður eins og hann stendur samkvæmt þjóðskrá.

Talnaefni