FRÉTT MANNFJÖLDI 26. MARS 2020

Fjöldi sveitarfélaga á Íslandi hefur tekið miklum breytingum í gegnum tíðina og sama er að segja um íbúafjölda þeirra. Sveitarfélögin voru þannig 203 talsins árið 1910 en voru 72 í lok árs 2019 og hafði þannig fækkað um rúm 64%. Þá hefur meðalfjöldi íbúa sveitarfélaganna á sama tíma tólffaldast.

Hagstofa Íslands hefur tekið saman í fyrsta sinn skrá um sveitarfélög og íbúatölu þeirra samkvæmt gildandi afmörkum þeirra árlega á tímabilinu 1910-2019. Miðlun þessara upplýsinga skiptist í þrjá meginþætti sem eru (1) Tölulegar upplýsingar um einstök sveitarfélög og íbúafjölda í þeim samkvæmt árlegum mannfjöldaupplýsingum; (2) Samandregnar tölur um fjölda sveitarfélaga og íbúa í þeim eftir stærðarflokkum; (3) Ítarleg samantekt um breytingar á sveitarfélagaskiptingu landsins á tímabilinu 1876-2019 (a) í tímaröð viðburða, og (b) í stafrófsröð eftir heiti sveitarfélags.

Samtals koma við sögu alls 308 sveitarfélög í þessu upplýsingasafni sem sum hver áttu sér skamman líftíma í oft og tíðum flókinni atvikakeðju sem leitast er við að halda til haga á vef Sögulegra hagtalna. Önnur sveitarfélög héldu velli nánast óbreytt, jafnvel þrátt fyrir að þau væru fámenn og stæðu af sér mikil umbrota- og samrunatímabil í sögu sveitarfélaga á 20. öld og í upphafi 21. aldar.

Tilfærsla mikilvægra þjónustuverkefna hafði mikil áhrif
Sem fyrr segir voru árið 1910 203 sveitarfélög í landinu með rúmlega 85.000 íbúa. Á næstu áratugum þar á eftir fjölgaði sveitarfélögum í landinu þannig að fjöldi þeirra varð mestur á árunum 1948-1952, alls 229 sveitarfélög. Í rúma þrjá áratugi eftir það hélst fjöldi sveitarfélaga tiltölulega stöðugur, fækkaði einungis um sjö fram til ársins 1986 en þá voru sveitarfélögin alls 222.

Landslagið gjörbreyttist á næstu tveimur áratugum í miklu samrunaferli með þeim afleiðingum að árið 2006 var fjöldi sveitarfélaga kominn niður í 79. Mestu máli skipti í þeim breytingum að mörg mikilvæg þjónustuverkefni, sem áður voru í verkahring ríkisins, færðust yfir til sveitarfélaganna en það þýddi um leið að krafan um öflugri sveitarfélög snerist mikið um stækkun þeirra sem þjónustu- og stjórnsýslueininga. Eftir þessa samrunahrinu tók við frekar hæg samrunaþróun og voru sveitarfélögin 72 í árslok 2019 líkt og áður hefur komið fram.

Ef farið er lengra aftur í tímann voru sveitarfélögin samkvæmt manntalinu 1703, fyrsta manntali sem gert var á Íslandi, alls 163. Þessi fjöldi sveitarfélaga hélst mjög stöðugur á 18. öld og fram á síðasta fjórðung 19. aldar. Þar sem árleg talning á íbúafjölda í hagtölum 19. aldar byggðist á skýrslum presta eftir sóknum eru fáar vísbendingar til um fjölda landsmanna eftir sveitarfélögum þrátt fyrir að þau hafi gegnt mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi allt frá því að land byggðist. Til eru hins vegar upplýsingar um landsmenn eftir sveitarfélögum nálægt árinu 1844 sem greina frá íbúatölu í 169 sveitarfélögum.

Meðalfjöldi íbúa sveitarfélaga árið 1703 var 309 en var 342 árið 1844. Árið 1901 var þessi tala komin í 406 íbúa. Vegna stöðugrar fjölgunar sveitarfélaga í landinu fram á miðja 20. öld jókst meðalíbúafjöldinn einungis um rúmlega 200 manns þrátt fyrir nokkuð hraða fjölgun þjóðarinnar. Meðalfjöldi í sveitarfélagi árið 1950 var 630 en var kominn í eitt þúsund íbúa árið 1978. Vegna áður nefndrar fækkunar sveitarfélaga eftir 1986 varð mikil breyting á þessum meðalfjölda sem var 5.057 manns í árslok 2019.

Mikið misvægi í íbúatölu sveitarfélaga allt fram á þennan dag
Fyrrgreind meðaltöl greina ekki frá því einkenni í skiptingu sveitarfélaga hérlendis sem er hið mikla misvægi í íbúatölu þeirra alveg fram á þennan dag. Ef skoðuð er samsetning sveitarfélaga í landinu árið 2019 sést að í þeim 8 sveitarfélögum sem höfðu meira en 10 þúsund íbúa bjuggu 76% landsmanna eða samtals 276.564 íbúar. Á sama tíma bjuggu alls um 5.400 manns í 23 sveitarfélögum með undir 500 íbúa sem jafngilti 1,5% landsmanna.

Ef horfið er til baka til ársins 1910 var Reykjavík eina sveitarfélagið með yfir 10 þúsund íbúa (11.600) og áttu 13% landsmanna fasta búsetu þar. Á sama tíma bjuggu rúmlega 46 þúsund manns, eða meira en helmingur landsmanna, í sveitarfélögum með undir 500 íbúa (54,4%). Ef litið er til þeirra sveitarfélaga sem höfðu innan við þúsund íbúa breytist stóra myndin lítillega í dag en skiptir meira máli fyrir rúmri öld síðan. Í þessum 197 sveitarfélögum af 203 árið 1910 bjuggu tæplega 66 þúsund manns eða 77% þjóðarinnar. Þessu til samanburðar bjuggu árið 2019 alls 16.730 manns í 39 sveitarfélögum með íbúatölu undir 1.000 manns eða 4,6% landsmanna.

Ofangreindar hagtölur eru einungis brot af því sem birt er af gögnum og tölum um sveitarfélögin í landinu á tímabilinu 1910-2019. Þess ber að geta að árlegar tölur um mannfjölda eftir sveitarfélögum, sem birtar eru hér yfir langt tímabil, veita eingöngu upplýsingar um heildarfjölda íbúa en skortir frekari tölur eftir kyni eða aldri. Aðalmanntöl, sem tekin voru með 10 ára millibili árin 1910-1960, sýna skiptingu íbúa sveitarfélaga eftir kyni en lítið umfram það.

Með tilkomu þjóðskrár, og bættri upplýsingagjöf á grundvelli hennar, má finna ítarlegar upplýsingar um einstök sveitarfélög og íbúa þeirra á síðustu áratugum. Þær upplýsingar, þótt ítarlegar séu, koma þó ekki í stað þess yfirlits sem Sögulegar hagtölur veita á heildstæðan hátt um einstök sveitarfélög í landinu ár frá ári í rúma öld. Þau sögulegu gögn sem hér eru kynnt eru tekin saman til að auðvelda almenningi að nálgast staðtölur og annan fróðleik um sveitarfélögin og breytta skipan þeirra ár frá ári samfellt í yfir eitt hundrað ár.

Breytingar á sveitarfélagaskiptingu landsins á tímabilinu 1876-2019 (pdf)

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1030 , netfang mannfjoldi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.