Hagstofa Íslands hefur um allnokkurt skeið birt upplýsingar um mannanöfn á vef stofnunarinnar. Nú hefur Hagstofan sent frá sér hefti í ritröðinni Hagtíðindi undir efnisflokknum Mannfjöldi. Heftinu er ætlað að varpa ljósi á þær breytingar sem orðið hafa á nafnavenjum á Íslandi á undanförnum áratugum. Fram kemur að samkvæmt þjóðskrá hinn 31. desember 2004 voru nöfnin Jón og Guðrún algengustu eiginnöfn á Íslandi. Verulegur munur reynist vera á nöfnum eftir aldri og í yngstu aldurshópunum hefur dregið verulega úr tíðni gamalgróinna mannanafna. Í yngstu aldurshópunum hafa mörg þessara nafna nú vikið fyrir nöfnum sem engir eða aðeins örfáir einstaklingar báru fyrir nokkrum áratugum síðan. Dæmi um þetta eru nöfnin Birta og Aron svo tekin séu dæmi af tveimur mannanöfnum sem notið hafa mikilla vinsælda á undanförnum árum. Önnur breyting á nafnahefðum eru ört vaxandi vinsældir tvínefna. Rúmlega 80% landsmanna á aldrinum 0–4 ára bera tvö eiginnöfn samanborið við innan við 20% einstaklinga yfir 85 ára aldri.
Algeng mannanöfn og nafngjafir á Íslandi samkvæmt þjóðskrá 31. desember 2004 - Hagtíðindi
Talnaefni