FRÉTT MANNFJÖLDI 17. DESEMBER 2008

Út er komin Spá um mannfjölda 2008–2050 í ritröð Hagtíðinda undir efnisflokknum Mannfjöldi. Samkvæmt spánni verða landsmenn 408.835 árið 2050 en íbúafjöldi var 313.376 við upphaf spátímabils hinn 1. janúar 2008. Árleg fólksfjölgun verður að meðaltali 0,6% sem er minni fjölgun en var á síðari hluta 20. aldar. Landsmönnum mun þó fyrirsjáanlega fækka fyrstu tvö ár spátímabilsins.

Vegna lengri meðalævi og lækkaðrar fæðingartíðni verða talsverðar breytingar á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Öldruðum mun fjölga verulega á spátímabilinu einkum undir lok þess. Í dag tilheyra elstu þjóðfélagsþegnarnir óvenjufámennum fæðingarárgöngum sem fæddust á kreppuárunum. Eftir 2020 þegar fjölmennir árgangar eftirstríðsáranna komast á eftirlaunaaldur mun hlutfall aldraðra hækka verulega. Árið 2050 verða 8,3% íbúa áttræðir eða eldri samanborið við 3,2% við upphaf spátímabils.

Þótt gert sé ráð fyrir því að barnsfæðingum fækki nokkuð á spátímabilinu verður fæðingartíðni áfram há í evrópsku samhengi. Fæðingartíðni hefur hækkað nokkuð undanfarin ár og í dag geta íslenskar konur vænst þess að eiga 2,1 börn um ævina. Gert er ráð fyrir að fyrstu tvö ár spátímabilsins verði frjósemishlutfall tæplega 2,1 en lækkar nokkuð í kjölfarið og mun standa í 2,0 fram til 2015. Eftir það mun frjósemishlutfall lækka jafnt og þétt í 1,85 við lok spátímabils. Vegna fremur hárrar fæðingartíðni verða börn og ungmenni hlutfallslega fjölmenn hér á landi. Árið 2050 mun 22,9% íbúa tilheyra aldurshópnum 0–19 ára en í dag er þetta hlutfall 28,5%.

Fólki af erlendum uppruna mun væntanlega fjölga í framtíðinni. Hagstofa Íslands gerir raunar ekki sérstaka spá fyrir innflytjendur, en vegna aukins aðflutnings fólks frá útlöndum verður hlutfall einstaklinga sem fæddir eru í útlöndum fyrirsjáanlega hærra en verið hefur. Þó er gert ráð fyrir að fleiri flytjist frá landinu en til þess árin 2009, 2010 og 2011 (neikvæður flutningsjöfnuður). Flutningsjöfnuður mun hækka eftir það og verður 2 af hverjum 1.000 íbúum árið 2030 og 2,1 við lok spátímabilsins. Þetta er heldur lægri flutningsjöfnuður en í Noregi og Svíþjóð en álíka hár og í Danmörku og Finnlandi.

Spá um mannfjölda 2008-2050 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.