FRÉTT MANNFJÖLDI 17. MAÍ 2004

Hagstofa Íslands birtir nú í fyrsta skipti töflur um skráningu óvígðar sambúðar og sambúðarslit. Nánari greining verður gerð á sambúð og sambúðarslitum í Hagtíðindum í júní 2004 en þar verður fjallað um hjónavígslur, stofnun sambúða, lögskilnaði og sambúðarslit. 
     Árið 2003 skráðu 1.718 pör sig í óvígða sambúð hjá þjóðskrá. Stofnaðar sambúðir reiknast því vera 5,9 af hverjum 1.000 íbúum. Ári áður (2002) var giftingartíðni (hjónavígslur á 1.000 íbúa) hér á landi 5,6 af 1.000. Þannig virðist heldur algengara að fólk skrái sig í sambúð en giftist.  Einstaklingar eru talsvert yngri við stofnun sambúðar en við stofnun hjúskapar, enda er sambúðin oft undanfari hjónabands. Tíðasti aldur við stofnun sambúðar var 25 ár meðal karla og 24 ár meðal kvenna samanborið við 29 og 27 ár við stofnun hjúskapar.
     Eins og við var að búast lauk talsvert mörgum sambúðum með hjónavígslu. Samkvæmt þjóðskrá átti þetta við um 1.067 sambúðir á árinu 2003. Sambúðarslit á árinu voru 764 og 29 sambúðum lauk með andláti annars maka. Í meira en helmingi allra tilvika (52,5%) hafði sambúð varað í minna en þrjú ár þegar henni var slitið (þ.e. þegar fólk skráði sig úr sambúð hjá þjóðskrá). Sambúð varir talsvert skemur en hjónaband en 14,7% hjónabanda hafði varað í minna en þrjú ár þegar lögskilnaður fór fram (bráðabirgðatölur ársins 2002).
     Barnlaus pör (pör án barna undir 18 ára aldri) sem slíta sambúð eru hlutfallslega álíka mörg og barnlaus pör sem skilja að lögum (37,3% para í sambúðarslitum 37,6% para í lögskilnuðum). Aftur á móti eiga foreldrar sem skilja að lögum jafnan fleiri börn en pör sem slíta sambúð.      

     Líkt og eftir lögskilnaði er nú algengast að forsjá barna sé í höndum beggja foreldra eftir sambúðarslit; í 73,3% tilvika eftir sambúðarslit samanborðið við 58,1% eftir lögskilnað. Móðir fer oftar ein með forsjá eftir lögskilnað (38,6%) en eftir sambúðarslit (26,1%). Aftur á móti er afar sjaldgæft að faðir fari einn með forsjá; í 0,6% tilvika úr sambúðarslitum og 3,6% úr lögskilnaði. 

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.