Fyrir skömmu setti Hagstofan á vef sinn svonefnda mannfjöldaklukku í tilefni af því að íbúar landsins nálguðust 300.000. Talning mannfjöldaklukkunnar byggðist á stöðu íbúaskrár dag frá degi og raunverulegum og áætluðum fjölda fæðinga, andláta og skráninga á fólki sem fluttist til landsins og frá því.
Mannfjöldaklukkan sló 300.000 um kl. 7 í morgun mánudaginn 9. janúar 2006. Hagstofunni þykir við hæfi að það barn, sem fæddist hér á landi sem næst þessum tíma, teljist þrjú hundruð þúsundasti íbúi landsins. Þetta er drengur sem fæddist á fæðingardeild Landspítala-háskólasjúkrahúss á sjöunda tímanum í morgun, sonur Erlu Maríu Andrésdóttur og Haraldar Arnarsonar í Reykjanesbæ.
Til að fagna þessum tímamótum ætla forsætisráðherra og hagstofustjóri að heimsækja barnið og foreldra þess á fæðingardeildina á morgun þriðjudaginn 10. janúar kl. 13.00.
Frétt um mannfjölda 1. desember 2005