FRÉTT MANNFJÖLDI 08. MARS 2006

Hagstofa Íslands birtir nú í fyrsta skipti á vef sínum upplýsingar um veitingu íslensks ríkisfangs. Tölurnar byggja á upplýsingum úr þjóðskrá og sýna fjölda einstaklinga sem fengu íslenskt ríkisfang samkvæmt 3., 4., 5., 5.a., 6., 9.b. og 11. grein laga nr. 100 um íslenskan ríkisborgararétt frá 1952 með áorðnum breytingum. Í töflunni eru einstaklingar greindir eftir kyni, aldri og fyrra ríkisfangi og einungis taldir þeir einstaklingar sem höfðu lögheimili á Íslandi við veitingu íslensks ríkisfangs. Rétt er að geta þess að tölur Hagstofunnar eru ekki fyllilega sambærilegar við tölur sem birtast í Veftímariti dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Þetta stafar öðrum þræði af því að í tölum dómsmálaráðuneytis er miðað við fæðingarland einstaklinga en ekki ríkisfangsland eins og gert er í tölum Hagstofunnar. Þá birtir dómsmálaráðuneytið upplýsingar um alla einstaklinga sem fengu íslenskt ríkisfang óháð því hvort þeir voru búsettir hér á landi eða erlendis. Loks taka tölur Hagstofunnar mið af færsludegi í þjóðskrá en ráðuneytið af útgáfudagsetningu ríkisfangsbréfs.

Einstaklingum sem hafa fengið íslenskt ríkisfang hefur fjölgað mjög ört á síðustu árum. Árið 2005 voru þeir 726 samborið við 161 árið 1991. Mest fjölgunin varð milli áranna 2003 og 2004 en þá fjölgaði einstaklingum sem öðluðust íslenskt ríkisfang úr 463 í 671. Flestir einstaklingar sem fengu íslenskt ríkisfang á árinu 2005 höfðu áður ríkisfang í Póllandi (184), næstflestir voru frá Serbíu og Svartfjallalandi (72) og 50 höfðu áður ríkisfang í Taílandi. Pólverjum sem fá íslenskt ríkisfang hefur fjölgað mjög ört undanfarin ár. Hverfandi fáir Pólverjar hlutu íslenskt ríkisfang framan af 10. áratug 20. aldar en undanfarin tvö ár hafa þeir verið langfjölmennastir einstaklinga sem öðluðust íslenskan ríkisborgararétt.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.