FRÉTT MANNFJÖLDI 27. OKTÓBER 2005

Mannfjöldadeild Hagstofu Íslands hefur nú sent frá sér hefti um ættleiðingar 1996–2004 í ritröðinni Hagtíðindi. Þar kemur fram að á árunum 1996–2004 voru ættleiðingar hér á landi 411 talsins. Í 174 tilvikum var um að ræða stjúpættleiðingu en frumættleiðingar voru 237.

Frumættleiddir Íslendingar voru 57 en frumættleiðingar frá útlöndum 180. Undanfarin þrjú ár hafa langflest ættleidd börn komið frá Kína, 46 stúlkur og einn drengur. Ef litið er til áranna 1996–2004 hafa börn frá Indlandi verið flest, þaðan hafa á þessu níu ára tímabili komið 60 stúlkur og 32 drengir. Stjúpættleiddir einstaklingar eru alla jafna eldri en frumættleiddir og meðalaldur þeirra sem voru stjúpættleiddir á árunum 1996–2004 var 21,8 ár.

Athygli vekur að hér á landi eru konur fleiri en karlar í hópi stjúpættleiddra. Alls voru stjúpættleiddar konur 122 en karlar einungis 52. Munurinn var fremur lítill meðal einstaklinga undir lögaldri, á þessu níu ára tímabili voru ættleiddar 30 stúlkur og 23 drengir yngri en 18 ára. Ættleiddar konur yfir lögaldri voru aftur á móti meira en þrefalt fleiri en ættleiddir karlar (92 á móti 29). Slíkur munur er t.d. ekki fyrir hendi í Danmörku en þar er lítill sem enginn munur á stjúpættleiðingum eftir kyni.

Ættleiðingar 1996-2004 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.