FRÉTT MANNTAL 14. NÓVEMBER 2022

Vinsamlegast athugið að þessari fréttatilkynningu var breytt 19. apríl 2023 frá upprunalegri útgáfu.

Hér er á ferðinni fyrsta fréttin í útgáfuröð um niðurstöður manntalsins 2021 sem miðast við 1. janúar það ár. Útgáfum manntalsins verður skipt upp eftir efni. Manntal er mikilsverð heimild fyrir ólíkar upplýsingar um mannfjöldann á tilteknum tíma og gefur því þverskurð af íbúum landsins sem ekki er mögulegt í annarri hagskýrslugerð.

Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

  • Mannfjöldi á Íslandi var 359.122 á manntalsdegi 1. janúar 2021. Íbúum fjölgaði um 13,8% frá því að manntal var tekið síðast árið 2011.
  • Fjölgun var í öllum landshlutum frá 2011 til 2021, mest á Suðurnesjum (29%) og minnst á Vestfjörðum (7%).
  • Hlutfall kvenna í manntalinu 2021 var 49,0% samanborið við 49,9% árið 2011.
  • Aldurssamsetning landsmanna hefur breyst og var hlutfall 67 ára og eldri 13,1% árið 2021 en 11,0% árið 2011.
  • Mannfjöldi í manntalinu 2021 er minni en mannfjöldinn samkvæmt Þjóðskrá og munar þar um tæplega tíu þúsund manns.

Íbúum fjölgaði um 13,8% frá manntalinu 2011
Á manntalsdegi voru íbúar landsins 359.122 og hafði þeim fjölgað um 13,8% frá manntalinu 2011 þegar fjöldi íbúa var 315.556. Þegar fyrsta manntalið var tekið árið 1703 voru íbúar landsins 50.358. Manntalið árið 1703 er talið það fyrsta í veröldinni sem hefur að geyma upplýsingar um nöfn, aldur, heimili og stöðu allra þjóðfélagsþegna í einu landi. Íbúum fjölgaði í öllum manntölum miðað við manntalið á undan nema tveimur, árin 1785 og 1890. Manntalið 2021 er 24. manntalið sem framkvæmt er hér á landi. Það er skráarbundið eins og manntalið 2011 og framkvæmt í samræmi við lög og reglur Evrópska efnahagssvæðisins.

Mest fjölgun á Suðurnesjum
Mannfjöldi jókst í öllum landshlutum frá 2011 til 2021. Hlutfallsleg fjölgun var mest á Suðurnesjum, 29% (6.094 manns). Næst kom Suðurland þar sem fjölgaði um 19,9% (5.052 manns) og höfuðborgarsvæðið með 14,6% (29.332 manns). Hlutfallsleg fjölgun var minnst á Vestfjörðum, 1,9% (136 manns), og á Vestfjörðum, 1,6% (109 manns). Að meðaltali voru 3,5 íbúar á hvern ferkílómetra.

Þrátt fyrir að landshlutakort að ofan sýni hvergi fækkun íbúa frá 2011 sést að íbúum hefur fækkað á sumum svæðum þegar landinu er skipt upp í talningarsvæði (42 svæði). Sem dæmi má nefna Vesturland án Akraness en íbúum í landshlutanum, að Akranesi undanskildu, fækkaði talsvert á milli manntalsins 2011 og 2021 en samkvæmt svæðaskiptingu manntalsins er Akranes sérstakt talningarsvæði.

Hlutfall kvenna lækkar örlítið
Samkvæmt manntalinu 2021 voru konur 49,0% (176.067) og karlar 51,0% (183.055) íbúa á Íslandi. Hlutfall kvenna hefur lækkað aðeins frá manntalinu 2011 þegar konur voru 49,9% mannfjöldans. Nýtt í manntalinu 2021 er skipting íbúa eftir smásvæðum (205 svæði). Upplýsingar um landsmenn eru jafnan brotnar niður eftir sveitarfélögum eða landshlutum en upplýsingar eftir smásvæði henta oft betur til greiningar þar sem dreifing byggðar á Íslandi er mjög ójöfn.

Leit eftir smásvæðum
Hér er hægt að fletta upp heimilisföngum til þess að sjá hvaða smásvæðum þau tilheyra.

Hlutfall barna lækkar milli manntala
Hlutfall 67 ára og eldri var 13,1% (46.886 manns) árið 2021 samanborið við 11,0% árið 2011. Þetta sýnir að þjóðin er að eldast. Næstum tveir þriðju hlutar mannfjöldans (64,2%) voru á aldrinum 18-66 ára á manntalsdegi 2021 (230.386 manns). Þetta er svipað hlutfall og árið 2011 (63,9%). Yngsti aldurshópurinn, börn frá 0-17 ára, var 22,8% af mannfjöldanum (81.850 manns) sem er lægra hlutfall en árið 2011 (25,1%).

Þau smásvæði sem höfðu hæst hlutfall barna tilheyra nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur og úthverfum. Lægst var hlutfall barna í miðborg Reykjavíkur og á nærliggjandi smásvæðum. Lægst var hlutfallið 8,1% á smásvæðinu Reykjavík: Miðborg – 0304 en hæst var það 37,2% á smásvæðinu Kópavogur: Vatnsendi – 2022.

Íbúar í manntali færri en samkvæmt Þjóðskrá
Fleiri einstaklingar eru skráðir í þjóðskrá (368.791) en teljast til mannfjölda samkvæmt manntalinu 2021 (359.112). Alls töldust 11.343 ekki til mannfjölda í manntali og 1.674 var bætt við. Mestu munar um þá sem flytja af landi brott án þess að tilkynna búferlaflutninga. Til þess að meta þetta misræmi var meðal annars stuðst við lífsmerkjarannsókn Hagstofunnar þar sem beitt var svokölluðu „random forest“ tölfræðilíkani. Líkanið nýtir margvíslegar upplýsingar úr úrtaksrannsóknum Hagstofunnar og opinberum skrám til þess að spá fyrir um þann fjölda sem býr erlendis þrátt fyrir að vera með skráð lögheimili á Íslandi. Niðurstaðan var sú að 7.701 einstaklingur búi erlendis þrátt fyrir að vera með íslenskt lögheimili í þjóðskrá.

Í manntalinu 2021 voru heimilisföng innanlands jafnframt leiðrétt miðað við þjóðskrá ef vísbendingar úr öðrum stjórnsýsluskrám gáfu tilefni til þess. Alls voru lögheimili leiðrétt fyrir 7.889 einstaklinga (2,3% af heildarmannfjölda) og 61,6% færð til innan sveitarfélags en 38,4% á milli sveitarfélaga.

Niðurstöður manntalsins 2021 verða birtar í áföngum frá nóvember 2022 til vorsins 2023 og er gert ráð fyrir mánaðarlegum birtingum eftir efni. Fjallað verður um íbúa út frá innlendum og erlendum bakgrunni í næstu útgáfu sem fyrirhuguð er í desember.

Greinargerð - Manntal og húsnæðistal 1. janúar 2021

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281100 , netfang manntal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.