FRÉTT MANNTAL 13. FEBRÚAR 2023

Vinsamlegast athugið að þessari fréttatilkynningu var breytt 19. apríl 2023 frá upprunalegri útgáfu.

Hlutfall starfandi einstaklinga 25 til 64 ára eftir smásvæðum var á bilinu 41,9-88,2% samkvæmt manntalinu 1. janúar 2021. Hæst var hlutfallið á smásvæðum á Austurlandi og innan eins smásvæðis á Akranesi. Í dag birtir Hagstofan niðurstöður úr manntalinu um íbúa landsins eftir stöðu á vinnumarkaði en um er að ræða fjórðu fréttina í útgáfuröð manntalsins.

Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

  • 70,3% íbúa landsins 16-74 ára voru starfandi samkvæmt manntali 2021 en voru 73,2% í manntali 2011.
  • Konur voru fleiri en karlar á meðal viðtakenda lífeyris eða fjármagnstekna (23.570 konur og 17.369 karlar).
  • Flestir atvinnulausra voru í aldurshópnum 25-34 ára (36% af öllum atvinnulausum).
  • Hæst hlutfall starfandi 25 til 64 ára var á smásvæðum á Austurlandi (88,2% og 88,1%) og innan eins smásvæðis á Akranesi (88,1%).
  • Hæst hlutfall karla var í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (94%) en kvenna í heilbrigðis- og félagsþjónustu (79%).
  • Hlutfallslega fleiri konur en karlar unnu með námi og var munurinn mestur í aldurshópnum 16 til 24 ára (63% kvenna og 52% karla).

Hlutfall starfandi örlítið lægra en árið 2011
Samkvæmt manntalinu 2021 voru 70,3% þjóðarinnar 16-74 ára starfandi (185.266 manns). Þetta er tæpum þremur prósentustigum lægra hlutfall af heildarfjölda á þessum aldri en í síðasta manntali árið 2011. Hlutfall atvinnulausra var heldur hærra en árið 2011 og einnig hlutfall viðtakenda lífeyris eða fjármagnstekna. Hlutfall nemenda lækkaði hins vegar á milli manntala. Þess ber að geta að þetta hlutfall á einungis við um þá nemendur sem voru eingöngu í námi, ef þeir unnu með skóla flokkast þeir með starfandi (sjá umfjöllun um námsmenn sérstaklega neðst í fréttinni).

Karlar fleiri á meðal starfandi og atvinnulausra
Karlar voru fleiri á meðal starfandi og atvinnulausra í manntalinu 2021 en konur. Þannig voru rúm 72% allra karla 16-74 ára starfandi og 5,9% atvinnulaus. Karlar voru líka fleiri en konur á meðal þeirra sem voru í námi án þess að vinna með skóla. Konur voru talsvert fleiri í hópi viðtakenda lífeyris eða fjármagnstekna.

Samkvæmt manntalinu 2021 var lítill munur á hlutfalli starfandi á aldrinum 25 til 64 ára eftir tíu ára aldurshópum eða frá 17% til 22%. Hlutfallsleg dreifing á meðal atvinnulausra var mun ójafnari og var atvinnuleysi mest í aldurshópnum 25-34 ára en dró svo úr því eftir aldri.

Vinnumarkaðurinn enn mjög kynskiptur
Heild- og smásöluverslun var fjölmennasta atvinnugreinin í manntalinu 2021 en þar var fjöldi starfandi alls 24.358. Heilbrigðis- og félagsþjónusta, fræðslustarfsemi og framleiðsla komu í kjölfarið, allar með yfir 20 þúsund starfandi, 16 ára og eldri. Vinnumarkaðurinn er enn mjög kynskiptur og var hæst hlutfall karla í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð en kvenna í heilbrigðis- og félagsþjónustu og fræðslustarfsemi.

Hæst hlutfall starfandi 25-64 ára eftir smásvæðum á Austurlandi og Akranesi
Sé horft til aldurshópsins 25-64 ára var hæst hlutfall starfandi á smásvæðum á austurlandi og innan Akraness eða rúm 88% íbúa. Af smásvæðum á höfuðborgarsvæðinu var hæst hlutfall starfandi innan eins svæðis í Mosfellsbæ og Kjós tæp (87%). Lægst hlutfall starfandi á landinu öllu var á þremur smásvæðum í Reykjanesbæ (41,9%-60,1%).


Hæst hlutfall starfandi á meðal íbúa frá Filippseyjum
Fjöldi starfandi 25-64 ára var 132.616 samkvæmt manntalinu 2011 og 148.154 í manntalinu 2021. Hlutfall starfandi var svipað á milli manntala hjá innlendum íbúum landsins en lægra árið 2021 hjá innflytjendum en það var árið 2011. Í báðum hópum var hlutfall starfandi hærra á meðal karla en á meðal kvenna.

Ef litið er á ellefu fjölmennustu hópa innflytjenda eftir fæðingarlandi var hæst hlutfall starfandi á meðal innflytjenda frá Filippseyjum eða rúm 84% og var það hlutfall jafnframt hærra en á meðal innlendra íbúa (81%). Hæst hlutfall atvinnuleysis í aldurshópnum 25-64 ára var á meðal Pólverja og Litháa en lægst á meðal íbúa frá Taílandi.

Fleiri vinna með námi
Alls voru 45.453 íbúar í námi í manntalinu 2021 og þar af voru 29.748 einnig í starfi. Hlutfall þeirra sem unnu með námi hækkaði á milli manntala 2011 og 2021, bæði í aldurshópnum 16 til 24 ára og á meðal þeirra sem eru 25 ára eða eldri. Jafnframt má sjá að í yngri hópnum vann hærra hlutfall kvenna með námi samanborið við karla. Hjá eldri hópnum er hlutfall starfandi nemenda jafnara á milli kynja en þó ívið hærra hjá körlum en konum. Hlutfall þeirra sem starfa með námi er mun hærra í eldri aldurshópnum en hjá þeim yngri.

Fréttir upp úr niðurstöðum manntalsins 1. janúar 2021 hafa verið birtar mánaðarlega frá nóvember 2022 og verða birtar áfram til vorsins 2023 þar sem lögð er áhersla á mismunandi viðfangsefni. Fjallað verður um heimilin í næstu útgáfu sem fyrirhuguð er í mars.

Talnaefni

Greinargerð - Manntal og húsnæðistal 1. janúar 2021 (birt 14. nóvember 2022)

Eldri fréttir úr manntalinu 2021:
Mannfjöldi á Íslandi 359.122 samkvæmt manntali 2021
Fjöldi innflytjenda hefur tvöfaldast frá manntalinu 2011
Rúmur þriðjungur íbúa landsins háskólamenntaður

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281100 , netfang manntal@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.