Fjöldi heimila í landinu var 130.849 en fjöldi fjölskyldna alls 89.696 samkvæmt manntali 1. janúar 2021. Bæði heimilum og fjölskyldum fjölgaði um rúm 10% frá manntalinu fyrir árið 2011. Í dag birtir Hagstofan niðurstöður úr manntalinu um fjölskyldur og húsnæði en um er að ræða fimmtu fréttina í útgáfuröð manntalsins.

Helstu niðurstöður samkvæmt manntali 1. janúar 2021 eru eftirfarandi:

  • Fjölskyldur á Íslandi voru alls 89.696.
  • Einkaheimili voru alls 130.849.
  • Fjölskyldur einstæðra mæðra voru alls 13.614 og einstæðra feðra 2.851.
  • Árið 2021 voru 2,65 á hverju heimili að meðaltali en 2,59 árið 2011.
  • 31,5% karla og 25,2% kvenna á aldrinum 18-36 ára bjuggu enn í foreldrahúsum.
  • Alls bjuggu 8.679 á stofnunum, þar af 3.893 á heilbrigðis- og öldrunarstofnunum.
  • Heimilislausir voru alls 1.272, þar af var útigangsfólk 194 og 1.078 voru í húsnæðishraki.

Einstæðum feðrum fjölgar
Fjölskyldur eru hjón og sambúðarfólk með eða án barna og einstæðir foreldrar. Heildarfjöldi fjölskyldukjarna samkvæmt manntalinu 2021 var 89.696, rúmum 10% fleiri fjölskyldur en árið 2011. Mestu munar um fjölgun sambúðarpara og hjóna en hlutfallsleg fjölgun einstæðra feðra var þó mest.

Af heildarfjölda íbúa (359.122) í landinu samkvæmt manntali 2021 voru flestir einstaklingar sem tilheyrðu fjölskyldu hjóna eða rúmlega 49%. Þar á eftir voru þeir sem voru einir eða utan fjölskyldu (tæp 24%).

Hlutfall einstæðra foreldra hæst innan smásvæða í Reykjanesbæ
Fjölskyldukjarnar einstæðra foreldra voru alls 16.465 (13.614 mæður og 2.851 faðir). Hlutfall einstæðra foreldra var hæst innan tveggja smásvæða í Reykjanesbæ (Ásbrú) eða 36% og rúm 33%. Þar á eftir var smásvæði innan Grafarvogs norður, Digraness í Kópavogi og í Vesturbæ norður. Lægst var hlutfallið innan smásvæðis á Seltjarnarnesi 8,8%, Vesturlandi án Akraness og í Garðabæ. Eins og sést þegar þysjað er inn á kortið hér fyrir neðan að mikill munur er á hlutfalli einstæðra foreldra innan hverfa bæði á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum.

Heimilum með tveimur eða fleiri einstaklingum fjölgaði mest
Fjöldi heimila samkvæmt manntalinu 2021 var alls 130.849 og hafði þeim fjölgað um 10,4% frá manntalinu 2011 þegar þau voru 118.565. Heimilum með tveimur eða fleiri einstæðingum fjölgaði mest hlutfallslega og voru þau tvöfalt fleiri en árið 2011.

Alls voru 2,65 heimilismenn á hverju heimili að meðaltali árið 2021 en voru 2,59 árið 2011. Heimilin eru misfjölmenn eftir smásvæðum. Þannig var meðalstærð heimilis 1,80 á einu smásvæði í miðborg Reykjavíkur en stærstu heimilin voru á einu smásvæði í Mosfellsbæ og Kjós, 3,85 að meðaltali.

Hlutfall kvenna sem bjó hjá foreldrum hækkaði frá síðasta manntali
Alls bjuggu 27.615 einstaklingar á aldrinum 18-36 ára í foreldrahúsum samkvæmt manntalinu 2021 eða 31,5% karla og 25,2% kvenna (15.954 karlar og 11.661 kona). Dregið hefur saman með kynjunum frá manntalinu 2011 en hlutfall kvenna sem bjó hjá foreldrum var hærra 2021 á meðan hlutfall karla hafði lækkað þó hlutfall þeirra karla sem búa heima sé enn talsvert hærra.

Ef einstaklingar sem búa hjá foreldrum eru skoðaðir eftir uppruna sést að mun hærra hlutfall innlendra einstaklinga býr hjá foreldrum en innflytjenda.

Íbúum heilbrigðis- og öldrunarstofnana fjölgaði um rúm 30%
Íbúar stofnanaheimila, þ.e. þeirra heimila sem ekki teljast til einkaheimila, voru alls 8.679 í manntalinu 2021 og var hlutfallsleg fjölgun þeirra frá síðasta manntali um 16%. Hlutfall íbúa af heildarfjölda landsins sem bjó á stofnanaheimilum var 2,4%. Flestir voru búsettir á heilbrigðis- og öldrunarstofnunum og fjölgaði þeim hlutfallslega um rúm 30% frá manntalinu 2011. Íbúum sem fengu studda búsetu fækkaði á tímabilinu. Fæstir íbúar voru á því sem fellur undir aðrar stofnanir en þar var hlutfallsleg fjölgun mest. Til þeirra stofnana teljast t.d. vinnubúðir og fangelsi en hlutfallslega mikil fjölgun var á fólki búsettu í vinnubúðum á milli manntala.

Heimilislausum körlum fjölgaði um 71%
Heildarfjöldi heimilislausra á landinu öllu samkvæmt manntalinu 2021 var 1.272. Heimilisleysi skiptist í tvo flokka, þ.e. útigangsfólk annars vegar og fólks í húsnæðishraki hins vegar. Útigangsfólk (e. primary homelessness) eru einstaklingar sem eru á götunni án skýlis sem myndi flokkast sem híbýli. Fólk í húsnæðishraki (e. secondary homelessness) eru einstaklingar sem eru í tíðum búferlaflutningum eða eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði vegna húsnæðisleysis. Heimilislausum alls fjölgaði hlutfallslega um rúm 67% á milli manntala 2011 og 2021. Körlum á útigangi fjölgaði mest eða um tæp 87%.

Um gögnin
Við samanburð á fjölda heimila í manntalinu 31. desember 2011 og 1. janúar 2021 verður að gæta þess að 2011 voru 328 manns með ótilgreint heimilisfang í þjóðskrá. Það var því ekki tiltökumál að gera ráð fyrir því að þeir ættu heimili í samræmi við fjölskyldutengsl og flutningasögu eða finna íbúð í öðrum gögnum. Í þjóðskrá 1. janúar 2021 voru hins vegar 2.919 manns með ótilgreint heimilisfang. Ógjörningur reyndist að finna heimilisfang eða íbúðir ríflega 2.186 einstaklinga sem teljast þar af leiðandi ekki með í fjölda einkaheimila. Flestir voru þeir einstæðingar utan fjölskyldu.

Talnaefni

Greinargerð - Manntal og húsnæðistal 1. janúar 2021 (birt 14. nóvember 2022)

Eldri fréttir - uppfærðar
Eldri fréttir úr manntalinu 2021 hafa verið uppfærðar samkvæmt endurskoðuðum tölum ásamt uppfærðu talnaefni:

Mannfjöldi á Íslandi 359.122 samkvæmt manntali 2021
Fjöldi innflytjenda hefur tvöfaldast frá manntalinu 2011
Rúmur þriðjungur íbúa landsins háskólamenntaður
Mikill munur á hlutfalli starfandi einstaklinga eftir smásvæðum