Út er komið hefti Hagtíðinda um félög fjölmiðlafólks, listamanna, teiknara og grafískra hönnuða á árabilinu 1980–2005 í efnisflokknum Menningarmál. Gerð er grein fyrir fjölda fullgildra félagsmanna félaganna og skiptingu þeirra eftir kyni. Félögin eru misjafnlega fjölmenn, eða allt frá fáeinum tugum í nær 700 manns. Á undangengnum árum hefur félagsmönnum margra félaga fjölgað umtalsvert. Við síðustu áramót voru félagar í samtökum blaða- og fréttamanna um 670. Sjö af hverjum tíu félagsmönnum voru karlar. Innan vébanda félaga grafískra hönnuða og teiknara voru 342 félagsmenn í ársbyrjun 2006. Skiptust félagsmenn beggja félaga tiltölulega jafnt milli kynja. Samanlagður fjöldi félagsmanna þeirra 15 félaga listamanna var við síðustu áramót ríflega 3.000 manns. Skipting félagsmanna eftir kyni er konum í óhag innan flestra félaga. Af 15 félögum eru karlar í meirihluta 11 félaga, en konur eru fjölmennari innan fjögurra félaga.

Félög fjölmiðlafólks, grafískra hönnuða og listamanna 1980–2005 - Hagtíðindi

Talnaefni