Sala hljóðrita frá innlendum útgefendum og dreifendum hefur, frá því er best lét, dregist saman um þrjá fjórðu hluta hvort heldur er talið í seldum eintökum eða verðmæti. Í fyrra seldust 192 þúsund eintök af geisladiskum og hljómplötum, eða 676 þúsund færri en árið 1999, er salan nam 868 þúsund eintökum. Miðað við sama tíma hefur seldum eintökum geisladiska og hljómplatna á íbúa fækkað úr 3,1 í 0,6. Heildarverðmæti seldra geisladiska, hljómplatna og stafrænna skráa á síðasta ári nam 430 milljónum króna, eða sem nam rétt ríflega þriðjungi af söluverðmæti ársins 1999, reiknað á verðlagi síðasta árs.
Í fyrra seldust um 20 prósent færri geisladiskar og hljómplötur á vegum útgefenda og dreifenda en árið á undan, eða 192 þúsund eintök samanborið við 243 þúsund árið áður. Seldum eintökum hefur fækkað umtalsvert, frá því að salan var mest árið 1999, en það ár seldust 868 þúsund eintök. Það jafngildir því að salan hafa dregist saman um 78 af hundraði á 16 ára tímabili (sjá mynd 1).
Átta af hverjum tíu eintökum sem seldust af geisladiskum og hljómplötum á síðasta ári var innlend framleiðsla. Samfara samdrætti í sölu geisladiska og hljómplatna hefur hlutfall innlendrar framleiðslu vaxið nær jafn og þétt eða frá því að vera innan við helmingur allan tíunda áratug síðustu aldar og fram yfir aldamótin og í yfir 80 af hundraði frá árinu 2010 að telja.
Á síðustu árum hefur útgáfa og dreifing hljómplatna færst í vöxt eftir að hún hafði legið niðri að mestu um árabil í kjölfar útbreiðslu geisladisksins. Í fyrra nam sala hljómplatna 11 þúsund eintökum samanborið við 180 þúsund seld eintök af geisladiskum, eða sem samsvarar tæpum sex af hundraði af heildarsölunni.
Í verðmæti talið nam sala hljóðrita (geisladiska, hljómplatna og stafrænna skráa) frá útgefendum og dreifendum 430 milljónum króna, samanborið við hátt í 470 milljónir króna árið á undan. Það jafngildir um átta prósent samdrætti milli ára. Söluandvirði af seldum hljóðritum hefur lækkað um 75 af hundraði frá því er best lét árið 1999, reiknað á föstu verðlagi (sjá mynd 2).
Hratt dvínandi sölu geisladiska og hljómplatna er að rekja til tveggja þátta öðrum fremur. Dregið hefur úr sölu geisladiska frá því að þeir leystu hljómplötuna að mestu leyti af hólmi á tíunda áratugnum og útgáfa efnis stór jókst í kjölfarið með endurútgáfum á efni sem áður var tiltækt á hljómplötum. Hins vegar má skýra út fall í sölu geisladiska með tilkomu nýrra aðferða við deilingu tónlistar til notenda í formi stafrænna skráa (hvort heldur er sem niðurhal eða streymi). Á síðasta ári nam sala stafrænna skráa á vegum þeirra tveggja aðila sem upplagseftirlit hljómplötuútgefenda tók til rúmum 123 milljónum króna. Það samsvarar til hátt í þriðjungs hljóðritasölunnar í verðmæti talið. Hafa ber hugfast að upplýsingar um sölu stafrænna skráa ná ekki til niðurhals og streymis frá erlendum tónlistarveitum.
Upplýsingar um dreifingu og sölu hljóðrita eru fegnar úr árlegu upplagseftirliti Félags hljómplötuframleiðenda. Úttekt síðasta árs náði til allra helstu innlendra framleiðenda og dreifenda geisladiska og hljómplatna, auk tveggja tónlistarveita.