FRÉTT MENNING 12. JANÚAR 2005

Nú liggja fyrir hjá Hagstofu Íslands upplýsingar um mannfjölda eftir trúfélögum og sóknum. Hinn 1. desember 2004 voru 85,5% landsmanna skráðir í þjóðkirkjuna en fyrir áratug var þetta hlutfall 91,8%. Á sama tíma hækkaði hlutfall íbúa í fríkirkjusöfnuðunum þremur - Fríkirkjunni í Reykjavík, Óháða söfnuðinum og Fríkirkjunni í Hafnarfirði - úr 3,2% í 4,5%.
       Skráðum trúfélögum hefur fjölgað talsvert á undanförnum árum; skráð trúfélög utan þjóðkirkju og fríkirkjusafnaða eru nú 21 en voru 11 fyrir 10 árum. Þessum trúfélögum tilheyra 4,6% íbúa, samanborið við 2,6% árið 1994. Kaþólska kirkjan er þeirra fjölmennust en þar hefur meðlimum fjölgað um meira en helming frá árinu 1994, úr 2.484 í 5.775. Árið 2004 tilheyrðu því 2% þjóðarinnar kaþólsku kirkjunni samanborið við 1% árið 1994. Hvítasunnusöfnuðurinn er næst stærsta trúfélagið, utan þjóðkirkju og fríkirkjusafnaða. Þar eru meðlimir nú 1.800 samanborið við 1.105 árið 1994 (0,6% þjóðarinnar 2004, samanborið við 0,4% árið 1994). Önnur trúfélög hafa innan við 1.000 meðlimi og í engu þeirra er hlutfall meðlima yfir 0,3% af íbúafjölda.
       Til óskráðra trúfélaga og með ótilgreind trúarbrögð heyrðu 2,7% þjóðarinnar samanborið við 1% árið 1994. Utan trúfélaga voru 2,4% samanborið við 1,4% árið 1994.

 

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.